Samfylkingin styður aukna orkuöflun

Vaxandi stuðningur virðist vera að myndast á Alþingi við hugmyndir …
Vaxandi stuðningur virðist vera að myndast á Alþingi við hugmyndir um að sett verði sérstök lög um tiltekna virkjunarkosti til þess að hraða megi byggingu orkuvera til að bregðast við yfirvofandi raforkuskorti í landinu. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég held að allir sjái að kyrrstaðan í orkuöflun bitnar ekki bara á orkuöryggi víða um land, heldur grefur einnig undan hagvexti og tækifærum til atvinnuuppbyggingar í landinu,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson alþingismaður Samfylkingarinnar í samtali við Morgunblaðið.

Vaxandi stuðningur virðist vera að myndast á Alþingi við hugmyndir um að sett verði sérstök lög um tiltekna virkjunarkosti til þess að hraða megi byggingu orkuvera til að bregðast við yfirvofandi raforkuskorti í landinu. Segir Jóhann Páll að það muni ekki standa á Samfylkingunni að styðja skynsamlegar lagabreytingar til að liðka til fyrir orkuöflun.

Gagnrýnir ríkisstjórnina

Hann gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir að hafa látið sex og hálft ár líða uns rammaáætlun var loks samþykkt í fyrra, þar sem ekki hafi verið samstaða innan stjórnarinnar í málaflokknum. Hann gagnrýnir einnig þunglamalegt og óskilvirkt leyfisveitingarferli þegar kemur að virkjunum.

„Vonandi fer eitthvað að hreyfast þar og Samfylkingin mun styðja það að einfalda leyfisveitingarferlið og að mál verði unnin innan viðunandi tímafrests. Ef við lítum til Hvammsvirkjunar þá var hún sett í nýtingarflokk 2015 og Samfylkingin studdi það. Nú er árið 2023 og hún er ekki farin af stað. Það er líka ábyrgðarhluti að ríkisstjórnir síðustu ára hafi ekki náð að skapa sátt um hvert tekjur af orkumannvirkjum eigi að renna,“ segir Jóhann Páll og vísar þar til deilna um Búrfellslund. Hvata skorti fyrir sveitarfélög til að liðka til fyrir orkuöflun.

Hætt við því að heimili og fyrirtæki beri skaðann

Fyrir Alþingi liggur frumvarp um raforkuöryggi þar sem bregðast á við yfirvofandi raforkuskorti og felur m.a. í sér að heimilt verði að skerða orku til stórnotenda til að tryggja raforku til almennra notenda. Samfylkingin mun líklega styðja málið að sögn Jóhanns.

„Staðan er sú að ef löggjafinn grípur ekki inn í er hætt við því að heimili og smærri fyrirtæki beri skaðann af því gríðarlega ójafnvægi sem er að myndast á orkumarkaði vegna umframeftirspurnar,“ segir Jóhann Páll sem telur þó að eðlilegra hefði verið að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra flytti málið sjálfur, en ekki atvinnuveganefnd eins og raunin varð.

Eðlilegra að æðsta stjórnvaldið taki ákvörðun

Jóhann Páll segir að best færi á því að ákvörðunarvald um orkuskömmtun yrði hjá ráðherra en ekki Orkustofnun, þar sem um íþyngjandi aðgerðir væri að ræða og eðlilegra að sá sem tekur ákvörðun sé æðsta stjórnvaldið í málaflokknum og þá að tillögu Orkustofnunar.

„Þegar við erum með svona risamál sem snertir raforkuöryggi þjóðarinnar og felur í sér íþyngjandi inngrip, þá er það líka lágmarkskrafa að fram fari mat á því hvernig löggjöfin samrýmist alþjóðlegum skuldbindingum og stjórnarskrá og á áhrifum þess á samkeppni á markaði,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka