Selenskí var „merkilega brattur“

Katrín og Selenskí á blaðamannafundinum.
Katrín og Selenskí á blaðamannafundinum. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að skýrt hafi komið fram á leiðtogafundi Norðurlandanna og Volodimírs Selenskís Úkraínuforseta að Norðurlöndin séu afar samstillt og samtaka í stuðningi sínum við Úkraínu.

Slíkt hafi því miður ekki verið uppi á teningunum í Bandaríkjunum, sem Selenskí heimsótti nýlega, þar sem fjárstuðningur við Úkraínu sé orðinn hluti af innlandspólitíkinni og innflytjendamálum. Joe Biden Bandaríkjaforseti hafi þó m.a. stutt við bakið á honum.

Katrín ásamt leiðtogum Norðurlandanna í Ósló.
Katrín ásamt leiðtogum Norðurlandanna í Ósló. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Leiðtogafundur Evrópusambandsins hefst á morgun og bendir Katrín á flækjur þeim megin líka eftir að forsætisráðherra Ungverjalands krafðist þess að ESB-aðild Úkraínu yrði tekin af dagskrá. „Það verður spurning hvað gerist á þeim fundi,” segir Katrín sem ræddi við mbl.is að loknum blaðamannafundi í Ósló. 

Rússar verði dregnir til ábyrgðar

Á leiðtogafundinum í Ósló var rætt um stöðu og horfur í hernaðarátökunum og um friðaráætlun Úkraínu. Í sameiginlegri yfirlýsingu fundarins heita norrænu leiðtogarnir áframhaldandi órofa stuðningi við Úkraínu. Þar er einnig lögð áhersla á að Rússar verði dregnir til ábyrgðar fyrir stríðsglæpi sína í Úkraínu.

„Norðurlöndin lýsa yfir fullum stuðningi við friðaráætlun Úkraínu sem byggir á réttlátum og varanlegum friði og munu áfram vinna á alþjóðavettvangi að framgangi áætlunarinnar," segir í yfirlýsingunni, að því er kemur fram í tilkynningu. 

Frá blaðamannafundinum í Ósló.
Frá blaðamannafundinum í Ósló. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Róbert Spanó leiðir verkefnið

Katrín segir að stuðningur Íslands sé annars eðlis en hinna Norðurlandanna því Íslendingar sendi ekki vígbúnað til Úkraínu heldur beiti sér frekar á pólitíska sviðinu. Nefnir hún tjónaskrá Evrópuráðsins sem var stofnuð í Reykjavík í vor. Þrátt fyrir að formennsku Íslands í Evrópuráðinu sé lokið muni það fylgja málinu eftir með Róbert Spanó sem nýkjörinn formann stjórnar verkefnisins.

Leiðtogarnir sitja við borð í Ósló.
Leiðtogarnir sitja við borð í Ósló. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Að sögn Katrínar er jafnframt í fjárlögum Alþingis fyrir árið 2024 lagður til 1,7 milljarða króna stuðningur til Úkraínu. Innifalið í þeirri tölu er 500 milljóna viðbótarfé sem lagt er til í þriðju umræðu fjárlaga. Einnig mun utanríkisráðherra útbúa langtímaáætlun um stuðning Íslands við Úkraínu.

Spurð segist hún eiga von á stuðningi á þinginu vegna þessa. „Mér hefur fundist mikil samstaða á Alþingi um þessi mál. Við tókum höndum saman þegar við sameinuðumst um þennan færanlega spítala [í Úkraínu] sem núna er kominn í gagnið,” svarar Katrín, sem segir þörf á langtímaáætlun í tengslum við málefni Úkraínu líkt og Norðmenn hafa t.d. búið til.

Selenskí og Katrín í Ósló í dag.
Selenskí og Katrín í Ósló í dag. AFP/Heiko Junge

Hvernig var hljóðið í Selenskí í Ósló?

„Mér finnst hann bara merkilega brattur miðað við að þetta er búið að standa lengi og það gengur ýmislegt á,” svarar Katrín, og á þar m.a. við innanlandspólitíkina í Bandaríkjunum og afstöðu Ungverjalands til Úkraínu.

„Þetta einfaldar ekki stöðuna. Þó að samstaðan sé mikil þá finnur maður að þetta reynir mjög á,” bætir hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert