Skekur ekki jörð fyrr en spennan er næg

Frá varnargörðum sem reistir hafa verið í kringum virkjun HS …
Frá varnargörðum sem reistir hafa verið í kringum virkjun HS Orku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga hjá Veður­stofu Íslands, segir ekki óeðlilegt að jarðskjálftar verði ekki í kringum svæðið þar sem landrisið er hvað mest á Reykjanesskaga um þessar mundir. 

Útskýrir hann að öll spenna hafi horfið af því svæði þegar kerfið tæmdi sig af kviku.

„Það losnaði öll spenna sem hafði þarna myndast vegna kviku. Nú er að koma inn meira af efni, en það er að koma inn í kerfi sem er alveg slakt. Við erum ekki byrjuð að brjóta jarðskorpuna vegna spennu því það slaknaði allt 10. nóvember. Það verður alveg viðvarandi áfram,“ segir Benedikt.

Gæti tekið mörg ár að jafna sig

Flestir jarðskjálftar síðustu daga og vikur hafa mælst við kvikuganginn sem liggur undir Sundhnúkagígaröðina, Hagafell og undir Grindavík. 

Land nálgast nú þá hæð sem það var komið í áður en kvika hljóp undir Grindavíkurveginn og austur í Sundhnúka. 10. desember var landið um fimm sentimetra frá því að ná þeirri hæð sem það var í 10. nóvember.

„Það sem er að gerast í kvikuganginum er að þar er jarðskorpan að jafna sig. Við sjáum virkni yfir ganginum og það má búast við að það standi lengi yfir. Eins og í Bárðarbungu tók það mörg ár, það var viðvarandi skjálftavirkni yfir kvikuganginum þar,“ segir Benedikt í samtali við mbl.is.

Í gær mældust þrír skjálftar yfir tveimur að stærð yfir kvikuganginum og voru það með stærri skjálftum sem hafa orðið á svæðinu undanfarna daga. Annars hafa skjálftarnir verið flestir hverjir undir tveimur að stærð og ekki fundist, nema á skjálftamælum. 

Fyrir utan Grindavík. Landrisið heldur enn áfram norður af bænum.
Fyrir utan Grindavík. Landrisið heldur enn áfram norður af bænum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blíðviðrið hefur áhrif

GPS-mælir sem mælir landsris við Svartsengi, skilaði síðast gögnum á mánudag, tölum frá sunnudeginum. Segir Benedikt að mælirinn sé straumlaus vegna veðurs, en birtan er lítil á þessum tíma árs og óvenju lítill vindur hefur verið. 

Unnið sé að því að skipta um rafgeymi í mælinum, en rafmagnsleysið uppgötvaðist í gær þegar tölur frá mánudeginum komu ekki inn.

Segir hann að skipt verði um geymi á GPS-mælum á Reykjanesskaga í vetur komi oftar upp slíkar aðstæður. Þetta eigi þó til að gerast yfir vetrartímann, sérstaklega á hálendinu, og þá sé ekki hlaupið að því að skipta um rafgeyma þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert