Gildi telur niðurfellingu vaxta og verðbóta óheimila

Árni Guðmundsson, framkvæmdatjóri Gildi, lífeyrissjóðs.
Árni Guðmundsson, framkvæmdatjóri Gildi, lífeyrissjóðs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn lífeyrissjóðsins Gildi telur að almenn niðurfelling vaxta og verðbóta vegna sjóðfélagalána íbúa Grindavíkur sé óheimil. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef lífeyrissjóðsins, en þar er vísað í álitsgerð frá lögmannsstofunni LEX, sem unnin var fyrir sjóðinn.

Segir þar að niðurstaða LEX sé afdráttarlaus um að sjóðnum sé ekki heimilt að afskrifa vexti og verðbætur með almennum hætti hjá lántökum. Hins vegar sé sjóðnum heimilt að taka til sérstakrar skoðunar einstaklingsbundnar aðstæður.

„Í því sambandi er bent á að lífeyrissjóðum er óheimilt að ráðstafa fjármunum í öðrum tilgangi en að greiða lífeyri,“ segir í tilkynningunni.

Þar með er ljóst að Gildi ætlar ekki að fylgja fordæmi viðskiptabankanna þriggja sem ákváðu að fella niður vexti og verðbætur til þriggja mánaða af húsnæðislánum íbúa í Grindavík í kjölfar þeirra hamfara sem þar urðu, en íbúar hafa ekki mátt gista í bænum frá því að jarðsig varð þar 10. nóvember. Hefur krafa lántakanna verið að lífeyrissjóðir fylgi fordæmi bankanna, en lífeyrissjóðirnir hafa hingað til vísað til þess að óljóst sé með lagalega heimild þeirra til að fara í slíka niðurfellingu.

Frá mótmælendum Grindvíkinga í höfuðstöðvum Gildis 30. nóvember.
Frá mótmælendum Grindvíkinga í höfuðstöðvum Gildis 30. nóvember. mbl.is/Eyþór

Munu meta stöðu einstakra lántaka

Í tilkynningunni frá Gildi segir einnig að sjóðurinn muni meta stöðu einstakra lántakenda sjóðsins frá Grindavík og skoða sérstaklega hvernig hægt sé að koma til móts við þá sem höllum fæti standa út frá greiðslugetu og veðstöðu. Einnig er vísað til þess að staðan á svæðinu sé enn um margt óljós og erfitt að meta hvenær kæmi til slíkra aðgerða.

Gildi, líkt og aðrir lífeyrissjóðir hafa veitt svokallað sex mánaða greiðsluskjól til íbúa Grindavíkur, en það kemur þó ekki í veg fyrir að vextir og verðbætur bætist við lánið og það lengist um sex mánuði.

Mótmæltu í höfuðstöðvum sjóðsins

Nokkuð hefur verið beðið eftir mati frá Gildi, en sjóðurinn er með stærsta hluta lífeyrissjóðslána í Grindavík. Þá vakti athygli þegar Grindvíkingar, ásamt Herði Guðbrandssyni, formanni Verkalýðsfélags Grindavíkur, Einari Hannesi Harðarsyni, formanni Vélstjóra- og sjómannafélags Grindavíkur, Ragnari Þór Ingólfssyni og formanni VR, Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, mættu í höfuðstöðvar Gildis og vildu þrýsta á sjóðinn að koma betur til móts við Grindvíkinga.

Sendi Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, í kjölfarið stjórn VR formlega kvörtun vegna framgöngu og hegðunar Ragnars Þórs gagnvart stjórnendum og almennu starfsfólki sjóðsins. Hafa þátttakendur í mótmælunum andmælt öllum slíkum ásökunum.

Á mánudaginn mættu svo mótmælendur aftur fyrir utan höfuðstöðvar Gildis og ítrekuðu kröfur sínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert