„Þetta er eins og léleg bíómynd“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Eggert Jóhannesson

„Þetta er eins og léleg bíómynd miðað við það sem undan er gengið hjá íslenskri ferðaþjónustu. Við ráðum ekki við heimsfaraldur, óveður eða jarðhræringar. Nú erum við að eiga við mannanna verk,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, um vinnustöðvun flugumferðarstjóra í samtali við mbl.is.

„Verði ekki látið viðgangast mjög lengi“

Bogi segir Icelandair ekki hafa nein tæki til að þrýsta á deiluaðila, enda ekki aðili máls. Spurður um mögulega lagasetningu á vinnudeiluna segir hann:

„Það er mikið búið að ganga á varðandi ferðaþjónustu í landinu. Stjórnvöld stóðu fyrir frábærri fjárfestingu í markaðssetningu landsins. Nú er verið að henda þeim peningum út um gluggann. Ég trúi ekki að það verði látið viðgangast mjög lengi.“

„Örfáir einstaklingar að loka landinu"“

Hann segir Icelandair muni grípa til svipaðra aðgerða og fyrr í vikunni, það er að seinka flugi, sameina flug og treysta á önnur flugfélög til að koma farþegum á áfangastað.

Aðgerðirnar í nótt munu hafa áhrif á 60 flug Icelandair og um 8.300 farþega, „sem flestir eru á leið að hitta ástvini fyrir jólin eða eru að fara í langþráð frí. Það eru örfáir einstaklingar að loka landinu og valda þessu,“ segir Bogi.

Aðgerðirnar beinist helst gegn tveimur flugfélögum 

Bogi Nils telur fullsnemmt að fullyrða hvaða skaða aðgerðirnar valdi inn í framtíðina. „Þegar áætlanir ganga ekki eftir þá verður endurgjöf viðskiptavina neikvæð.“

„Það eru á milli 15 til 20 flugfélög að fljúga til Íslands en aðgerðirnar beinast einkum að starfsemi tveggja þeirra. Fólk getur svo velt fyrir sér hvort það er eðlilegt,“ segir Bogi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert