Pólska þingið þurfti að taka sér hlé eftir að Grzegorz Braun, þingmaður og róttækur hægrimaður, notaði slökkvitæki á menora-ljósastiku þinghússins, sem er níu arma ljósastika og tákn gyðingdóms. Kveikt hafði verið á kertunum stikunnar í tilefni ljósahátíðar gyðinga.
Sendiherra Ísraels í Póllandi segir á samfélagsmiðlinum X að atvikið sé „skömm“. Forseti pólska þingsins segir að formleg kvörtun verði lögð fram vegna Braun. Breska dagblaðið The Guardian greinir frá.
Donald Tusk, kjörinn forsætisráðherra Póllands og formaður Borgaravettvangsins, hafði einmitt nýlega kynnt stefnur sínar á Pólska þinginu en hann bíður nú traustsyfirlýsingar frá þinginu sem á að kjósa um það í kvöld hvort ríkisstjórn Tusks fái að taka við völdum í þessari viku.
Í gær hlaut Tusk stjórnarmyndunarumboð eftir að Mateusz Morawiecky, fráfarandi forsætisráðherra landsins, hlaut ekki meirihluta atkvæða í þinginu til að leiða næstu ríkisstjórn landsins.
Í ræðu Tusks kennir ýmissa grasa. Hann heitar því m.a. að finna lausn á mótmælaaðgerðum flutningabílstjóra við landamæri Úkraínu sem hafa staðið yfir í mánuð.
Þá hvatti Tusk einnig til þess að Pólland sýndi meiri stuðning við Úkraínu og styrkti tengsl við Evrópusambandið, en stuðningur Pólverja við Úkraínumenn hefur farið dvínandi á síðustu misserum.
„Ég mótmæli jaðarsetningunni á hlutverki Póllands á alþjóðavettvangi,“ sagði Tusk í ávarpi sínu til þingsins í dag.
„Ég mótmæli útlendingaandúðinni sem yfirvöld hafa kynnt í þjóðfélagsumræðuna,“ bætti hann við og kvaðst einnig mótmæla „fjandsamlegu viðhorfi yfirvalda í garð innflytjenda“.
„Við munum hafa mismunandni skoðanir á mörgum málum, en við viljum vera samfélag og starf ríkisstjórnar framtíðarinnar mun leggja áherslu á þetta,“ sagði hann við þingið og hélt áfram.
„Við erum svo mismunandi, við höfum tamið okkur mismunandi hefðir. Þetta eru okkar auðæfi. Samfélagið er byggt á réttarríkinu og stjórnarskránni, og við ættum ekki að rífast um þetta til þess eins að geta örugglega rifist um önnur málefni.“