Gul viðvörun tekur gildi á stórum hluta landsins í nótt. Mbl.is heyrði í veðurfræðingi hjá Veðurstofunni um hvers ber að vænta.
Veðrið kemur undan sömu lægð og gekk yfir á miðvikudag og hefur nú snúist í suðvestan átt. Það hefur kólnað eilítið og byrjar því sem skúrir en verða slydduél á morgun. Skúrir í nótt verða svo þéttir að ekki er mikil hvíld inn á milli. Á fimmtudag verða skúrir og slydduél og kólnar jafnt og þétt og endar sem snjóél.
Þessa gætir mest á Suður- og Vesturlandi. Það verður að mestu leyti bjart yfir norðaustan- og austanlands. Viðvaranirnar sem taka gildi í nótt vara fram á föstudagsmorgun. Lægðin hefur komið sér fyrir á Grænlandssundi og virðist ekkert vera að fara. Lægðin keyrir nokkuð stöðuga suðvestanátt að landinu. Áhrifa veðursins gæti því gætt allt fram á laugardag.
Þegar snjóél koma úr lofti versna akstursskilyrði til muna og þess gætir fyrst til fjalla. Snjókoman getur verið þétt og dimmir þá yfir.
Það er töluverður vindur sem fylgir veðrinu, allt upp í 15-20 metra á sekúndu. Það gæti orðið allt að 23 m/s í éljum.
Vindur er það mikill að lausamunir geta fokið. En þeir ættu flestir að vera komnir í öruggt skjól fyrir utan jólaskrautið.
Veðurstofan mælir með því að fólk fylgist vel með veðri þegar það fer af stað, einkum þegar hugað er að ferðum á milli landshluta.
Gul viðvörun þýðir að fólk þarf að sýna aðgát. Miklu máli skiptir þá að halda ekki af stað á vanbúnum bílum og alltaf er mögulegt að gripið verði til vegalokana á heiðavegum.