Tveir náttúruvársérfræðingar eru að jafnaði á vakt hjá Veðurstofu Íslands á daginn og einn á nóttunni, auk bakvaktar. Í kjölfar þeirra atburða sem orðið hafa á Reykjanesskaga, og fyrirsjáanlegt er að verði á svæðinu, ætlar Veðurstofan að fjölga sérfræðingum til að sinna sólarhringsvakt.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Í tilkynningunni fullyrðir Veðurstofan að sá misskilningur hafi komið upp eftir íbúafund fyrir Grindvíkinga í gær að Veðurstofan sé ekki með náttúruvársérfræðing á vakt á kvöldin og að næturlagi.
Segir í tilkynningu að þetta fyrirkomulag, tveir sérfræðingar yfir daginn og einn að næturlagi, hafi verið til staðar um árabil. Í stórum atburðum fjölgi Veðurstofan svo sérfræðingum á sólarhringsvakt svo eftirlit sé fullnægjandi hvað varðar viðbragðstíma.
Þá segir þar enn fremur að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, hafi samþykkt ráðningu í átta ný stöðugildi sérfræðinga til að takast við áskoranir sem birtast á Reykjanesskaga. Var það gert 15. nóvember og stöðurnar auglýstar 20. nóvember.
Stöðugildin munu sérstaklega nýtast í vöktun og samtúlkun gagna í jarðskjálfta- og eldgosavá.
Á Veðurstofunni er unnið hratt að því að skipuleggja vöktun og innleiða nauðsynlegar breytingar í eftirlitskerfinu stofnunarinnar til að fullnægja kröfum um viðbragðstíma.
Atburðarásin og umfang umbrotanna 10. nóvember gerbreytti forsendum Veðurstofunnar fyrir umfangi vöktunar Grindavíkur og Svartsengis gagnvart eldgosavá.
Viðbragðsaðilar þurfa svo að skoða og meta fjölmarga þætti sem hafa áhrif á þá ákvörðun um hvenær og með hvaða hætti Grindvíkingar geta snúið heim.