Ólafur E. Jóhannsson
Bankar hafa verið tregir til að lána Grindvíkingum fjármuni til íbúðakaupa, þrátt fyrir að fólk sé jafnvel með skuldlausa eign í bænum og greiðslumat fyrir tveimur húsnæðislánum, að sögn Vilhjálms Árnasonar alþingismanns.
„Það kom mér á óvart hve margir þeirra sem ákváðu að reyna að kaupa sér húseign á meðan þetta ástand er og stuðla þannig að eignamyndun í stað þess að borga háar fjárhæðir í leigu, hafa orðið fyrir þessu,“ segir Vilhjálmur í samtali við Morgunblaðið.
Þá hefur Grindavíkurbær orðið fyrir því að fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu neitaði bænum um reikningsviðskipti. „Mér finnst þetta með hreinum ólíkindum og skil þetta engan veginn. Bæjarfélagið stendur gríðarlega vel og betur en flest sveitarfélög í landinu og er ekki með neinar vaxtaberandi skuldir,“ segir Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkurbæjar og segir að sér finnist þetta viðhorf sorglegt.
Þá segist hann þekkja dæmi um að fyrirtækjum í bænum verið neitað um reikningsviðskipti hjá birgjum.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.