Bankinn „hefur staðið við bakið á Grindvíkingum“

Landsbankinn hefur rýmkað þær reglur sem gilda um íbúðalán til …
Landsbankinn hefur rýmkað þær reglur sem gilda um íbúðalán til að koma til móts við Grindvíkinga sem eiga íbúðarhúsnæði í Grindavík, samkvæmt upplýsingum bankans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsbankinn hefur rýmkað reglur um íbúðalán til að koma til móts við Grindvíkinga sem eiga íbúðarhúsnæði í Grindavík. Þá hefur bankinn sýnt liðleika gagnvart fyrirtækjum í viðskiptum við bankann, samkvæmt upplýsingum frá bankanum.

Greint var frá því í Morgunblaðinu í morgun að íslensku bankarnir hefðu verið tregir til að lána Grindvíkingum fjármuni til íbúðakaupa. 

Lántaki verði að standast greiðslumat

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum er almennt ekki hægt að fá íbúðalán vegna tveggja fasteigna hjá bankanum. 

„Það er vegna þess að íbúðalán eru til þess að kaupa heimili, þar sem lántaki hefur fasta búsetu. Vegna aðstæðna höfum við rýmkað þessar reglur til að koma til móts við Grindvíkinga sem eiga íbúðarhúsnæði, en vilja kaupa sér eign utan bæjarfélagsins,“ segir í upplýsingum frá bankanum.

„Þannig hefur bankinn veitt Grindvíkingum, sem eiga íbúðarhúsnæði í bænum, íbúðalán til kaupa á annarri fasteign. Slíkar lánveitingar eru þó háðar því að lántaki standist greiðslumat og geti lagt fram nægt eigið fé við kaupin (20%), rétt eins og gildir um önnur íbúðalán.“

Tekið tillit til óvenjulegrar stöðu

Samkvæmt upplýsingum bankans hefur Landsbankinn nýtt undanþáguheimildir vegna reglna sem snúa að greiðslubyrðarhlutfalli sem almennt er 35% af útborguðum launum lántakenda.

„Þá er tekið tillit til óvenjulegrar stöðu Grindvíkinga við skoðun á niðurstöðum greiðslumats vegna fasteignakaupanna og mál utan almennra marka tekin til sérstakrar skoðunar og vikið frá almennum reglum ef svigrúm er til staðar.“

Bankinn veitir þó ekki ný íbúðalán á fasteignir í Grindavík á meðan óvissa ríkir um framhaldið, s.s. um ástand eigna og markaðsvirði.

Óheimilt að lána umfram 80%

Þá er tekið fram að bankinn verði samkvæmt lögum og reglum um fasteignalán að byggja lánveitingar á greiðslumati og er honum óheimilt að lána umfram 80% af markaðsvirði. 

Erfiðlega geti reynst að standast greiðslumat og lánaskilyrði vegna íbúðalána af tveimur eignum.

„Við höfum einnig sýnt liðleika gagnvart fyrirtækjum í viðskiptum og frestað afborgunum og vaxtagreiðslum fyrir þau sem þess óskuðu. Við höfum ekki orðið vör við að fyrirtæki á svæðinu sem eru í viðskiptum við bankann hafi sóst sérstaklega eftir aukinni rekstrarfjármögnun,“ segir í upplýsingum frá bankanum.

„Landsbankinn hefur staðið við bakið á Grindvíkingum, sem hafa þurft að flýja heimili sín, með því að fella niður vexti og verðbætur af íbúðalánum í þrjá mánuði. Einnig höfum við boðið Grindvíkingum að fresta öllum greiðslum af íbúðalánum þeirra í sex mánuði og lengja lán þeirra sem frestinum nemur. Það tryggir lágmarksáhrif af frestinum, þegar greiðslur hefjast að nýju. Af meðalláni nemur hækkun mánaðarlegrar greiðslu að sex mánaða frestun aflokinni, nokkur hundruð krónum á mánuði.

Þá hefur bankinn staðið við öll lánsloforð til Grindvíkinga, bæði vegna nýrra íbúðalána sem og vegna endurfjármögnunar, sem voru tilkomin fyrir náttúruhamfarirnar. Þá er auðsótt mál að endurfjármagna íbúðalán í Grindavík.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert