Boðar frumvarp um einföldun vals vindorkukosta

Vindmillur við Búrfell.
Vindmillur við Búrfell. mbl.is/Árni Sæberg

Frumvarp til laga um breytta og einfaldari tilhögun við val á virkjunarkostum í vindorku verður lagt fram á Alþingi í byrjun næsta árs, en Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, kynnti áform sín þar um í gær.

„Þetta er fyrst og fremst mikil einföldun til þess að flýta grænni orkuöflun. Ég held að öllum sé ljóst hversu mikilvægt það er,“ segir Guðlaugur Þór í samtali við Morgunblaðið, spurður um í áhrif áformaðra breytinga.

„Þarna getur þingið með einfaldri þingsályktunartillögu komið með þann ramma sem það vill sjá um vindorkukosti og ef þeir kostir uppfylla sett skilyrði, getur ráðherra að höfðu samráði sent þá til sveitarfélaga í stað þess að málið fari í gegnum hefðbundið ferli rammaáætlunar,“ segir Guðlaugur Þór.

Ýmis skilyrði sett

Hið nýja fyrirkomulag sem lagt verður fyrir Alþingi er þannig, að við mat á virkjunarkostum í vindorku á verkefnisstjórn að kanna hvort einstakir virkjunarkostir uppfylli tiltekin skilyrði.

Þau skilyrði eru að virkjunarkosturinn sé liður í því að ná markmiðum Íslands við orkuskipti og kolefnishlutleysi sem og að hann sé innan landsvæðis sem almennt teljist vera raskað af mannlegum athöfnum. Þá má vindorkukosturinn ekki rýra um of mikilvæga verndarhagsmuni svæða sem njóta verndar að lögum eða nálægra svæða sem njóta sérstöðu á landsvísu vegna náttúru, menningarminja eða tengdrar atvinnustarfsemi. Loks má vindorkukosturinn ekki vera á svæði þar sem mikið er um villta fugla sem metnir eru í hættu eða í verulegri hættu á válistum, eða fuglategundir með hátt eða mjög hátt verndargildi að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Lesa má meira um málið í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert