Braut gegn fjórtán ára stúlku í búningsklefa

Héraðsdómur Reykjavík hefur dæmt manninn í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi …
Héraðsdómur Reykjavík hefur dæmt manninn í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að áreita fjórtán ára stúlku í búningsklefa sundlaugar. mbl.is/Hákon

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum með því að ganga inn á fjórtán ára stúlku í kvennaklefa sundlaugar og berað sig fyrir framan hana.

Auk þessa þarf maðurinn að greiða brotaþola 500.000 krónur í miskabætur ásamt öllum sakakostnaði.

Gyrti niður um sig

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness er gerð ítarleg grein fyrir málsatvikum, en atvikið átti sér stað síðdegis sunnudaginn 13. mars 2022. Þá var brotaþoli staddur inni í kvennaklefa sundlaugarinnar þegar maðurinn gekk inn í klefann. 

Að sögn brotaþola þóttist ákærði ekki vita að um kvennaklefa væri að ræða þegar hann gekk inn og spurði hann hvar karlaklefinn væri.

Kvaðst brotaþoli þá hafa bent manninum á að hann væri á röngum stað, en þrátt fyrir það gekk hinn ákærði lengra inn í búningsklefann og hóf að hrósa brotaþola fyrir líkama hennar sem hann sagði að væri flottur. 

Því næst sagði ákærði að sjálfur væri hann einnig með flottan líkama, en í kjölfarið gyrti hann niður um sig svo að brotaþoli sá getnaðarlim hans.

Þá bað maðurinn brotaþola um að knúsa sig, en eftir að brotaþoli neitaði bað hann brotaþola um að taka í höndina á sér sem hún kvaðst hafa gert til þess að reyna að losna við hann. 

Sagðist þurfa einkasvæði vegna trú sinnar

Fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjaness að maðurinn hafi gengst við því að hafa ítrekað farið inn í kvennaklefa laugarinnar, en þó hafi alltaf verið um misskilning að ræða.

Hafi hann verið að leita sér að einkasvæði þar sem honum gæfist kostur á að fara úr fötunum og í sturtu þar sem trú hans leyfði ekki að hann þvoði sér innan um annað fólk.

Þar að auki bar maðurinn fyrir sig að hafa hvorki séð skiltið við innganginn á klefanum sem sýndi að um kvennaklefa væri að ræða, né væri hann fær um að lesa á íslensku. 

Bar fyrir sig ótrúverðuga röksemdafærslu

Röksemdafærsla mannsins var talinn ótrúverðug fyrir dómi þar sem frásögn hans stakk í stúf við efni sem var að finna í myndbandsupptökum sundlaugarinnar, en á upptökunum sást maðurinn fara ítrekað inn í búningsklefa kvenna og staldra þar við. 

Í niðurstöðukafla dómsins segir að framburður mannsins fái hvorki stoð í framburðum vitna né rannsóknargögnum málsins og byggi hann heldur á tilraun ákærða til þess að réttlæta háttsemi sína og fegra sinn hlut. 

Þar af leiðandi var frumburður hans ekki lagður til grundvallar við meðferð málsins, en maðurinn hefur nú verið sakfelldur og dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna atviksins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert