Ekkert er því til fyrirstöðu að hefja undirbúning að byggingu íbúðarhúsnæðis á lóðinni Grettisgötu 87. Þetta kemur fram í umsögn skrifstofu stjórnsýslu og gæða hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. Á lóðinni var áður bílaverkstæðið Bílrúðan, sem varð eldi að bráð hinn 7. mars 2016. Brunarústir hafa staðið þar síðan eða í rúm sjö ár og verið sannkallað lýti á umhverfinu.
Lögfræðistofan Landslög leitaði til umhverfis- og skipulagssviðs með bréfi í síðasta mánuði fyrir hönd eiganda Grettisgötu 87, sem er félagið Melholt ehf. Í bréfinu er rakið hvað gerst hafði í málinu frá því húsið brann og er þar margt fróðlegt að finna.
Strax hinn 30. maí 2016 funduðu eigendur með starfsmönnum byggingafulltrúa um enduruppbyggingu hússins. Fengust þær upplýsingar að heimilt væri að endurbyggja húsið í sömu mynd og ekki þyrfti umfjöllun skipulagsyfirvalda vegna þess.
„Fyrirspurn um enduruppbyggingu var lögð fyrir byggingafulltrúa. Með bréfi þann 7. júní 2016 var tilkynnt að jákvætt væri tekið í erindið. Það bréf var hins vegar sent á hið brunna hús og komst ekki til skila,“ segir m.a. í bréfi Landslaga.
Húseigandinn innti embættið eftir afgreiðslu málsins í tölvupósti í júlí 2016 og aftur í september en þeim var ekki svarað skriflega. Í símtali í október staðfesti starfsmaður byggingafulltrúa loks fyrrgreinda afgreiðslu.
Eftir að þessar upplýsingar bárust fékk húseigandinn mat verkfræðistofu á ástandi hússins. Var það metið svo að ekki væri gerlegt að nýta uppistandandi hluta hins brunna húss en nýta mætti kjallarann. Teikningar voru lagðar inn til borgarinnar af stálgrindarhúsi klæddu steinullareiningum og sótt um byggingarleyfi í september 2018.
Málið var í framhaldinu sent til umsagnar skipulagsfulltrúa borgarinnar sem komst að allt annarri niðurstöðu en byggingafulltrúinn. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi væri stefnt að þéttingu byggðar á svæðinu. Iðnaðarhúsið við Grettisgötu 87 yrði rifið og þess í stað byggt íbúðarhús í beinu framhaldi af Snorrabraut 35.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út miðvikudaginn 13. desember.