„Ég tók grunngráðu í iðnaðarverkfræði og fór svo beint í leiklist,“ segir Stefán Þór Þorgeirsson, leikari og að því best er vitað eini Íslendingurinn á japönsku eyjunni Hokkaido þar sem hann býr ásamt konu sinni Sherine Otomo og nýfæddum syni í borginni Sapporo.
Stefán fellst á það með blaðamanni að BS-gráða í verkfræði sé tæplega algengasta forspil leiklistarnáms en verkfræðina nam hann við Háskóla Íslands og lauk prófi árið 2018. „Sumir hafa kallað þetta 180 gráðu beygju en ég hef nú náð að nýta hvort tveggja, ég held að þetta séu ekkert ólíkir heimar þegar allt kemur til alls,“ segir Stefán.
Á lokasprettinum í verkfræðinni fékk hann að vita að Listaháskóli Íslands hefði bænheyrt hann um inngöngu. „Ég man að ég var í tíma í gæðastjórnun þegar ég fékk að vita að ég hefði komist inn,“ rifjar hann upp.
Blaðamaður veltir því fyrir sér hvort Stefán hljóti ekki að vera eini verkfræðimenntaði leikarinn sem farsældar Frón hefur uppfóstrað við sitt brjóst og jafnvel þótt víðar væri skyggnst en Stefán veit betur.
„Ég hélt ég væri sá eini en komst svo að því að Daníel Takefusa [Þórisson, sonur Dóru Takefusa, leik- og dagskrárgerðarkonu og fleira] fór svipaða leið, reyndar lærði hann leiklist á Englandi en hann var með iðnaðarverkfræði áður en hann fór í leiklistina,“ segir Stefán sem er Garðbæingur og stúdent úr Menntaskólanum í Reykjavík en það var einmitt á menntaskólaárunum sem Japan kom inn í líf hans – fyrir tilviljun.
„Ég fór í skiptinám til Japans 2011 til 2012 og fékk leyfi hjá skólastjórnendum í MR til að fara. „Gott og vel, þú mátt fara, en þú verður að átta þig á því að þú færð ekkert metið,“ var mér sagt sem var í raun enn betra þar sem ég þurfti þá ekki að skila inn neinum árangri,“ rifjar Stefán upp og í framhaldinu lá leið hans frá stífbónuðum göngum gamla menntaskólans í miðbænum yfir í japanskan menntaskóla þar sem hann nam einn vetur.
„Þar sem ég þurfti ekki að ná neinum prófum skráði ég mig í gítartíma og námskeið í skrautskrift og málaralist,“ segir Stefán sem augljóslega hafði gengið listagyðjunni á hönd löngu áður en hann hóf verkfræðinám sitt. Blaðamaður veltir því fyrir sér hvers vegna Japan hefði orðið fyrir valinu skiptinemaárið góða.
„Ég ætlaði alltaf að fara til Spánar,“ svarar Stefán, „ég fór í gegnum AFS og þegar ég fór að skoða þetta kom í ljós að ég var orðinn of gamall fyrir nánast allan heiminn. Það sem stóð eftir var Kína, Taíland, Ástralía, Bandaríkin og Japan og af þessum löndum valdi ég Japan, pabbi hafði verið svolítið í Japan og mælti með því. Ég hafði ákveðna mynd af landinu gegnum bíómyndir, tónlist og eitthvað slíkt og vildi sjá hvort sú mynd stæðist skoðun sem hún gerði náttúrulega ekki,“ segir Stefán í léttum dúr.
Löngun hans stóð til skiptinemadvalar á hlýjum stað sem Japan er að mestu leyti en auðvitað gekk þetta ekki eftir. „Skiptinemasamtökin finna bara fjölskyldu sem er tilbúin að taka við þér og þú veist náttúrulega ekkert hvar það er í landinu. Svo ég fékk að vita að ég væri að fara til Sapporo og þegar ég gúgglaði það kemur í ljós að það er nyrsta borg Japans, rétt sunnan við Kamtjatska svo sá draumur fékk ekki að rætast,“ segir Stefán sem engu að síður lætur mjög vel af skiptinemadvölinni og borginni enda fluttur þangað aftur nú.
Stefán lauk leiklistarnámi í eftirköstum heimsfaraldursins og tók þá til við að lesa inn á hljóðbækur og vinna með hljóðformið sem leiddi hann yfir í hlaðvarpsgerð en hlaðvarpið Heimsendir er runnið undan rifjum hans og tók hann sitt fyrsta viðtal þar daginn eftir frumsýningu lokaverkefnis hans við Listaháskóla Íslands.
„Þar fjalla ég um hitt og þetta tengt heimsendi og heimsendaspám en allt á léttum nótum. Ég hef verið með þessa þætti vikulega síðan þótt ég hafi tekið stutt hlé inn á milli. Þegar ég flutti til Japans hef ég hins vegar fjallað æ meira um Japan og lífið hér en á Íslandi var ég líka dálítið í því að semja leikrit og ég sýndi eitt leikrit á Íslandi sem heitir Fyrirlestur um gervigreind. Ég hef alltaf reynt að spinna saman þennan verkfræðibakgrunn annars vegar og svo sköpunargleðina og ímyndunaraflið og það sem fylgir leiklistinni hins vegar. Oftar en ekki kemur því minn efniviður í leiklistinni eða sögusögnum úr einhverjum tækniheimi eða dystópíu eða framtíðarspá,“ útskýrir leikarinn.
Það var svo í maí 2022 sem Stefán og Sherine fluttu til Tókýó. „Við vorum búin að búa saman á Íslandi í þó nokkurn tíma áður en við ákváðum að flytja til Tókýó þar sem hún komst inn í nám og mig hafði alltaf dreymt um að búa í Tókýó. Þar vorum við í rúmt ár áður en við fluttum til Sapporo,“ segir Stefán frá og er spurður nánar út í heimaborgina en þar kynntust þau Sherine einmitt á tímum skiptináms hans.
„Hún er fimmta stærsta borg Japans held ég og þegar ég sagði að hún væri rétt sunnan við Kamtjatska þá eru það einhverjir 800 kílómetrar reyndar, en Sapporo er á Hokkaido sem er nyrsta eyja Japans, tæplega jafn stór og Ísland, og Sapporo er höfuðborgin þar með einhverjar tvær milljónir íbúa,“ segir Stefán af heimahögunum. Hann kveðst þó lítið finna fyrir íbúafjöldanum.
„Við búum nálægt fjöllunum, hér er allt skógi vaxið og svo mikil náttúra að hér koma skógarbirnir af og til, dádýr, uglur og ernir. Ég kalla þetta stundum Alaska Japans,“ segir Stefán sem hefur ekki skort tækifærin og verkefnin á leiksviðinu enda talar hann japönsku reiprennandi.
„Í Tokýó hafði ég slatta af tækifærum, ég tók þátt í þremur leiksýningum þar, tveimur á ensku og einni á japönsku, svo var ég mikið í prufum. Japan er mjög auglýsinga- og verslunarmiðað hagkerfi, rosalega mikið um auglýsingar og leikarar og fyrirsætur hér eru bara á kafi í auglýsingum, ég var að fara allt að fjórum sinnum í viku í prufur hingað og þangað um borgina og fékk tækifæri til að taka þátt í mörgum japönskum auglýsingum sem sumar hverjar voru ýktari en aðrar. Sumar kröfðust þess til dæmis að ég væri í einhverjum einkennisbúningi eða einhverju slíku og ég fékk líka tækifæri til að taka þátt í sjónvarpi, einu sinni í japanskri falinni myndavél þar sem ég lék einhvern Bandaríkjamann,“ segir hann af leiklistarferli í Japan, fáheyrðu tækifæri Íslendings.
Sapporo sé hins vegar töluvert frábrugðin höfuðborginni japönsku. „Hún er önnur saga, miklu minni borg. Við getum borið þetta saman við Reykjavík og Ísland. Hér búa sexfalt fleiri en á öllu Íslandi en í Reykjavík er samt meiri leiklist og meiri tónlist en í Sapporo sem er svolítill sveitabær. Hér er mun minna um prufur og þannig verkefni, færri tækifæri fyrir mig til að vera í leiklist en fleiri tækifæri til að skrifa leikrit eða bara þróa einhver verkefni heima fyrir,“ segir Stefán.
Þetta kveður hann ganga vonum framar, hann sé ekki bundinn neinu starfi heldur taki að sér ýmis verkefni á sveigjanlegum vinnutíma tengt leiklistinni en einnig sinni hann eldra fagi sínu, verkfræðinni, inn á milli. „Fyrirtæki á Íslandi heitir Showdeck og byggir upp hugbúnað fyrir sviðslistir, er vefvangur fyrir sviðslistir og fólk sem er að búa til leiksýningu, danssýningu eða tónleika. Ég hef eitthvað verið að vinna fyrir þau í vefhönnun og get verið að sinna því einhverja klukkutíma á dag,“ segir Stefán.
Heimavinna og stýring álags henti honum vel þar sem þau Sherine eignuðust nýverið soninn og frumburðinn Emír Otomo Stefánsson. Sveigjanleiki sé því nauðsynlegur fyrstu mánuðina með nýtt líf á heimilinu en Stefán og Sherine eru bæði fædd 1993 og því jafn gömul. Eða hvað?
„Hún er samt ári yngri en ég í Japan af því að árið hér, skólaárið og vinnuárið, byrjar í apríl og af því að ég er fæddur í febrúar er ég árinu eldri,“ segir Stefán sposkur.
Við snúum talinu að japönsku samfélagi og hvernig Norðurlandabúa gangi að sameinast því svo langt að heiman – þjóðfélagi sem á sér gjörólíka siði, venjur og gildi.
„Já, þetta er eilífðarverkefni, að læra inn á þennan menningarheim og hugsunarhátt,“ svarar Stefán. „Þetta er svo löng saga og það fylgir henni svo mikil byrði eða mikil menning, ýmsar langar fléttur fylgja henni langt aftur í tímann. Ég reyni að lifa bara eftir þeirri möntru að þetta er allt öðruvísi, það er ekkert rétt eða rangt, hlutirnir eru bara öðruvísi,“ útskýrir hann.
Allt sé þetta þó nokkru einfaldara í Tókýó þar sem ákveðið Íslendingasamfélag sé fyrir hendi. „Ég held að við séum kannski fimmtíu Íslendingar í Japan og þar af 35 í Tókýó. Ég er einn hérna á Hokkaido, þetta er átta milljóna manna eyja og ég er eini Íslendingurinn hérna,“ segir Stefán og getur ekki varist hlátri.
Í hans umhverfi sé mikið um Rússa auk þess sem þar séu einhverjir Finnar og Þjóðverjar. Þá sé mikið um Ástrala í Japan enda ekki órafjarlægð frá þeirra heimkynnum. „Ég held að aðalmálið fyrir mig í Japan hafi verið að leggja einstaklingshyggjuna til hliðar og vera tilbúinn að taka við félagshyggjunni – því að hugsa meira um hópinn en mann sjálfan, Japanir eru mjög góðir í því,“ segir hann.
Stefán játar að honum hafi verið það eldskírn að koma 18 ára gamall til Japans, búa hjá japanskri fjölskyldu sem talaði ekki orð í ensku og hefja nám í þúsund nemenda skóla. „Þúsund japanskir nemendu, einn hvítur gaur frá Íslandi,“ segir Stefán sem hlaut enga formlega japönskukennslu en lærði málið af að tala við skólasystkini sín.
„Ég fór náttúrulega beint inn í leikfélagið í skólanum, fékk bara línur og lærði þær, skildi náttúrulega ekki neitt en lærði bara. Eftir ár var ég orðinn nokkuð góður og það hjálpaði auðvitað að eignast kærustu en svo hef ég bara lært málið með því að tala það,“ segir Stefán frá.
Inntur eftir matarhefðum Japana og matnum þar lætur Íslendingurinn vel af. „Mér finnst hann mjög góður en það er persónubundið. Hann hentar mér mjög vel en ég hef tekið á móti Íslendingum sem koma hingað og finnst hann ekkert spes. Mér finnst hinn hefðbundni japanski matur bestur, sushi og sashimi, hrár fiskur annars vegar og svo kannski wagyu sem er fitumikið nautakjöt. Þetta er svona til hátíðabrigða en hefðbundinn og hversdagslegur japanskur matur er skál af hrísgrjónum, miso-súpa, súrsað grænmeti og kjöt eða fiskur,“ segir Stefán af matseðlinum þar eystra.
Íslensk loðna sé vinsæl í Japan enda mikið flutt af henni þangað. Hún sé jafnan heilsteikt og snædd þannig. Eins megi ekki gleyma natto, gerjuðum sojabaunum sem snæddar séu með sinnepi og sojasósu. Þær séu ómissandi og kveður hann þau Sherine borða þann herramannsmat fjóra til fimm daga í viku.
Stefán er sonur Þorgeirs Pálssonar, sveitarstjóra Strandabyggðar, sem situr á Hólmavík, og Þóru Kemp, systur Júlíusar Kemp leikstjóra, sem búsett er í Garðabæ og hefur starfað lengi á velferðarsviði Reykjavíkur en er núna kominn í Kópavoginn. Stefán á tvö systkini móðurmegin og þrjú föðurmegin auk tveggja maka foreldra sinna, „svo þetta er alveg stórfjölskylda“, játar leikarinn.
Inntur eftir framtíðaráætlunum kveður hann þau Sherine líklega á leið til Íslands í stutta viðdvöl eftir að hún lýkur námi í mars. „Við þurfum auðvitað að sýna fjölskyldunni heima soninn,“ segir Stefán en er annars reikull sem rótlaust þangið er kemur að frekari áætlunum.
„Ég er bara ekki viss. Það hefur hentað mér og hentar mér mjög vel að vera í alls konar verkefnum og vera í vinnu sem gerir mér kleift að búa hvar sem er. Leiklistin og það að segja sögur er eitthvað sem ég held að maður geti gert hvar sem er,“ segir Stefán og nefnir hlaðvarp sitt sem hann getur sinnt hvar sem er þótt markhópurinn sé íslenskur.
„Við erum ekki með neitt niðurneglt, ég hugsa að við komum heim í smástund en hversu lengi verður bara að koma í ljós. Það hentar mér ágætlega að vera svona sveigjanlegur,“ segir Stefán Þór Þorgeirsson, verkfræðimenntaður leikari í Japan, hlaðvarpsstjóri og raunar margt fleira, undir lok fróðlegs spjalls.