Eldur kviknaði í potti og eldavél í heimahúsi í Hafnarfirði í gærkvöldi. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og lögregla voru kölluð á staðinn en húsráðendur voru búnir að slökkva eldinn þegar viðbragðsaðilar komu á staðinn en slökkvilið reykræsti húsnæðið.
Frá þessu er greint í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem sagt er frá verkefnum gærkvöldsins og í nótt.
Tilkynnt var um umferðaróhapp í Hafnarfirði en þar hafði bifreið verið ekið á ljósastaur. Ökumaður er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna og var hann vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Í höfuðborginni var tilkynnt um tvö innbrot í fyrirtæki í hverfum 105 og 108 og í Kópavogi var tilkynnt um umferðaróhapp en þar lentu saman bifreið og rafhlaupahjól. Stjórnandi rafhlaupahjólsins var fluttur á bráðamóttöku til skoðunar.
Bifreið var stöðvuð í hverfi 101 en bifreiðinni var ekið á 98 km hraða þar sem hámarkshraði er leyfður 60 km við bestu aðstæður. Í viðræðum við ökumann vaknaði grunur um að hann væri undir áhrifum fíkniefna og var sá grunur staðfestur með munnvatnsprófi. Ökumaður var því handtekinn og síðar látinn laus að lokinni sýnatöku.