Enginn vill eiga og reka líkhús

Enginn hefur sýnt því áhuga að kaupa eða leigja líkhúsið …
Enginn hefur sýnt því áhuga að kaupa eða leigja líkhúsið á Akureyri. Framkvæmdastjóra Kirkjugarða Akureyrar kemur það ekki á óvart. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hvorki kaupandi né leigjandi hafa fundist að líkhúsinu á Akureyri. Þó hafa nokkrir verið áhugasamir um leigu húsnæðisins, en Smári Sigurðsson, fram­kvæmda­stjóri Kirkju­g­arða Ak­ur­eyr­ar, segir í samtali við mbl.is að hann telji ólíklegt að þeir aðilar ætli að halda rekstri líkhúss áfram. Að óbreyttu verður ekkert líkhús á Akureyri í náinni framtíð.

„Það hefur enginn sýnt áhuga á að reka það sem líkhús, enda skil ég það nú mæta vel,“ segir Smári. 

Myndi ekki kaupa hlutabréf í útfararstofu á landsbyggðinni

Spurður hvort engin útfararþjónusta hafi sýnt rekstrinum áhuga segir Smári nei, slíkt myndi aldrei ganga upp úti á landi. 

„Ég myndi ekki kaupa mér hlutabréf í útfararstofu á landsbyggðinni ef ég væri einhver fjárfestir,“ segir Smári. Hann segir húsnæðið sem nú er til sölu eða leigu líka henta illa vegna þess hve stór kapellan er. Það myndi aldrei ganga upp fyrir útfararþjónustu 

Skömmu fyrir miðjan nóvembermánuð var líkhúsið á Akureyri auglýst til sölu eða leigu. Í viðtali við mbl.is um auglýsinguna benti Smári á það gat sem er í kerfinu. Hvorki ríki né sveitarfélög bera ábyrgð á því hvað gerist eftir að skrifað er undir dánarvottorð og þar til kistan er grafin. 

„Það ber engum skylda að reka líkhús“

Ástæða þess að líkhúsið er til sölu eða leigu er að Kirkjugarðar Akureyrar hafa ekki lengur fjármagn til að sinna rekstri þess. Rekstur líkhúsa er ekki bundinn í lög, aðeins kjarnastarfsemi kirkjugarða, svo sem að taka grafir og sinna kirkjugörðunum. 

Smári segir í samtali við mbl.is að málin hafi verið í ólestri lengi, í meira en fimmtán ár. 

„Því miður hefur ekkert hreyfst í þessum málum. Það eru engin svör frá opinberum aðilum hvaða stefnu þeir ætla að leggja með þennan feril, frá dánarvottorði til kirkjugarðs. Það ber engum skylda að reka líkhús,“ segir Smári. 

Hann segir að stjórnvöld verði að gera stefnu og opinbera þá stefnu um hverjum beri að reka líkhús.

Stjórnvöld hafa ekki sett neina stefnu um hvað gerist á …
Stjórnvöld hafa ekki sett neina stefnu um hvað gerist á þeim tíma sem líður milli þess að dánarvottorð er gefið út og þar til greftrun hefur farið fram.

Ástvinir geymdir í kæli hjá Eimskip?

Kirkjugarðar mega ekki rukka líkhúsgjald, en það var reynt árið 2005. Það var kært og komst þá Umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að ekki væri lagastoð fyrir því að rukka þetta gjald. Síðan hefur ekkert gerst. 

Hann segir stöðuna alvarlega með tilliti til mannfjöldaspár fyrir næstu ár og einnig með tilliti til þess að aðeins tvö líkhús séu rekin af hinu opinbera núna. Fyrr á þessu ári voru þau þrjú, en Kirkjugarðar Hafnarfjarðar lokuðu og seldu kælikerfin. 

„Ef við lokum og kirkjugarðar Reykjavíkur loka. Hvað verður um ástvini okkar sem falla frá? Verður það bara einhver kælir hjá Eimskip?“ spyr Smári. 

Líkhús Kirkjugarða Reykjavíkur er í gömlu og úr sér gengnu húsnæði. Þá eru kælikerfin í líkhúsinu einnig komin til ára sinna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert