Fækkar í þjóðkirkjunni

Talsverða fækkun má rýna í skráðum einstaklingum hjá þjóðkirkjunni frá …
Talsverða fækkun má rýna í skráðum einstaklingum hjá þjóðkirkjunni frá árinu 2019. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjöldi einstaklinga sem eru skráðir í þjóðkirkjuna fækkar þétt og jafnt á milli ára, en alls voru 225.902 einstaklingar skráðir í kirkjuna samkvæmt skráningu Þjóðskrár frá síðasta desember. Á milli ára hefur skráðum einstaklingum í þjóðkirkjunni fækkað um 1567.

Árið 2019 voru 65,2% landsmanna skráðir í þjóðkirkjuna, árið 2020 voru það 62,3%, árið 2021 61%, árið 2022 59,1% og nú í desember á þessu ári eru 56,7% skráðir. 

Fjölgar í hópi kaþólika

Fjölgað hefur mest í kaþólsku kirkjunni á Íslandi á árinu eða um 468 einstakling, sem er um 3,2% fjölgun. Siðmennt fjölgaði um 445 einstaklinga, en hlutfallslega mesta fjölguninni var hjá Lífspekifélagi Íslands eða um 193% með um 85 einstaklinga í félaginu. 

Ekki má greina almenna fjölgun í hópi þeirra sem skrá sig í annað trú- og lífskoðunarfélag en þjóðkirkjuna. Um 15% landsmanna tilheyra þeim hópi og hefur sú tala haldist nokkuð stöðug frá árinu 2019.

Ótilgreindum fjölgar

Einstaklingum sem hafa sérstaklega skráð sig utan trú- og lífskoðunarfélags fjölgaði um 2,5% á milli ára og telur sá hópur 30.557 einstaklinga. Þá eru allt í allt 82.795 sem kenna sig hvorki við trúarfélag né lífskoðunarfélag og greina má fjölgun á milli ára í þeim hópi. 

Þannig voru 13% landsmanna skráðir utan trú- og lífskoðunarfélags árið 2019, 15% árið 2020, 16,1% árið 2021, 18,2% árið 2022 og 20,8% á þessu ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka