Breska flugfélagið Easyjet hefur hafið sölu á flugferðum til Akureyrarflugvallar frá London Gatwick í október og nóvember á næsta ári. Þetta skiptir sköpum fyrir verslun og þjónustu yfir vetrarmánuðina á Akureyri fyrir Norðurlandið allt.
Þetta segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, í samtali við mbl.is.
Þetta er í annað skipti sem Easyjet ákveður að fljúga norður á Akureyri en flugfélagið hefur einnig verið með áætlunarferðir þangað núna í vetur. Samkvæmt Arnheiði þá hefur bókunarstaða verið ágæt.
„Við gerum bara ráð fyrir aukningu í fjölda Breta sem eru að koma með fluginu og nýtingin hefur verið samkvæmt áætlun hjá þeim, þokkaleg það sem af er, og ágætis bókunarstaða,“ segir Arnheiður.
Flugfélagið hóf beint flug til Norðurlands í október síðastliðnum og er með ferðir á áætlun tvisvar í viku út mars, á þriðjudögum og laugardögum. Stefnt er að flugi sama tímabil næsta vetur og mun félagið setja fleiri mánuði í sölu þegar nær dregur.
„Þetta skiptir mjög miklu máli þessi flug fyrir Norðurland því þetta er að koma yfir vetrartímann sem eru okkar erfiðustu mánuðir, þar sem hefur verið lítið að gera og erfitt að koma fólki norður um hávetur.
Þannig þetta er á mjög góðu tímabili sem þessi flug eru að koma og breyta í rauninni ferðaþjónustunni á Íslandi, þannig við getum þróað vetraferðaþjónustu og haldið fyrirtækjunum okkar opnum allt árið,“ segir Arnheiður.
Ekki liggur fyrir hver farþegafjöldinn er í heildina en í ár og fram í vor eru 44 flug áætluð og má gera ráð fyrir sama fjölda á næsta ári og fram á vorið 2025.
Arnheiður segir að gestirnir séu meðal annars að sækjast í norðurljósaferðir, náttúruböð og fossa.
„Bara upplifa snjó og vetur. Þeir eru líka hrifnir af matnum okkar og duglegir að njóta menningarinnar,“ segir Arnheiður.