Flugfélagið Ernir flýgur til Eyja

Áætlunarflug til Vestmannaeyja hefst næstkomandi sunnudag.
Áætlunarflug til Vestmannaeyja hefst næstkomandi sunnudag. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Flugfélagið Ernir og Vegagerðin hafa komið að samkomulagi um áætlunarflug frá Reykjavíkurflugvelli til Vestmannaeyja. 

Eins og er heldur flugfélagið út áætlunarflugi til tveggja áfangastaða, Hafnar í Hornafirði og Húsavíkur. Með tilkomu áætlunarflugs til Vestmannaeyja eru áfangastaðirnir orðnir þrír. 

Flogið þrisvar í viku

Fyrsta flug Ernis til Eyja verður næstkomandi sunnudag og fyrst um sinn verður flogið þrjá daga vikunnar, þriðjudaga, miðvikudaga og sunnudaga, segir í tilkynningu frá Erni. 

Fargjaldið mun kosta 17.000 kr. fyrir fullorðna og 10.000 kr. fyrir börn 2-11 ára. 

Í síðasta mánuði komst flugfélagið að samkomulagi við við Vegargerðina um áframhaldandi áætlunarflug til Húsavíkur.

Flugi til Eyja fagnað

Í tilkynningu segir að bæjarráð Vestmannaeyja hafi ályktað um samning Ernis og Vegagerðarinnar á fundi í gær og fagnaði tilkomu áætlunarflugsins. 

Þá segir í tilkynningu að: „Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Eyjum segist mjög ánægð að verið sé að taka fyrstu skrefin í að koma áætlunarflugi aftur í gang til Eyja, enda algerlega nauðsynlegt að hafa þann samgöngumöguleika fyrir Eyjamenn.“

Enn fremur segir í tilkynningu að: „G. Ómar Pétursson, rekstrarstjóri Ernis, segir flugið til Vestmannaeyja góða viðbót við starfsemi félagsins og væntir hann góðs af samstarfi við einstakling, fyrirtæki og bæjaryfirvöld.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert