Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) telur að boðaðar kerfisbreytingar er varða nýtt styrkjakerfi vegna kaupa á hreinorkubílum séu allt of seint fram komnar. Ýmislegt í breytingaferlinu sé ófrágengið og óljóst, og þá bitni þessi seinagangur á bílgreininni og neytendum.
„Á engum tímapunkti leitaði umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið álits hjá FÍB, hagsmuna- og neytendasamtaka bíleigenda með um 20.000 félagsmenn, um fyrirhugaðar kerfisbreytingar sem varða þó verulega hagsmuni fyrir neytendur. Svona vinnubrögð falla ekki undir vandaða og lýðræðislega stjórnsýslu,“ segir í tilkynningu frá FÍB.
Nýja kerfið sem um ræðir á að taka við af skattaívilnunum vegna rafbílakaupa sem hafa verið í boði á liðnum árum.
FÍB segir að í nýja kerfinu sé ráðgert að styrkja einstaklinga vegna kaupa á rafknúnum fólksbílum sem kosta undir 10 milljónum um 900.000 kr. á árinu 2024.
„Styrkhlutfallið vegna ódýrari bíla verður þar með hærra en vegna kaupa á dýrari bílum. Enginn styrkur verður greiddur vegna fólksbíla sem kosta meira en 10 m.kr. Styrkir vegna notaðra innfluttra bíla verða lægri og ná einungis til nýlegra bíla,“ segir FÍB.
Þá segir að í dag sé veitt ívilnun í formi lækkaðs virðisaukaskatts vegna allra hreinorkubíla óháð verði, en með breytingunum fái allir hreinorkufólksbílar sem eigi annað borð fá styrk, bæði heimilisbílar og bílaleigubílar, sömu upphæð.
„Ívilnanir vegna kaupa á rafbílum hafa verið í formi lækkaðs virðisaukaskatts. Skattaafslátturinn var lækkaður úr 1.560.000 krónum í 1.320.000 krónur um síðustu áramót. Frá og með 1. janúar 2024 verður hætt að veita skattaívilnun en í staðinn kemur 900.000 króna styrkur vegna nýskráðra raffólksbíla,“ segir FÍB.