Á fyrstu 10 mánuðum þessa árs hafa tæplega 270 einstaklingar greinst með lekanda sem er 70% aukning miðað við árið 2022. Meirihluti þeirra sem greinast með lekanda eru karlar. Þá hefur tilfellum sárasóttar einnig fjölgað miðað við fyrri ár. Ekki hefur orðið aukning á tilfellum klamydíu líkt og á lekanda.
Þetta kemur fram í nýju tölublaði Farsóttarfrétta, sem embætti landlæknisembættisins gefur út. Metfjöldi greindist með lekanda á síðasta ári, eða 160. Þar kemur einnig fram að greind sárasóttartilfelli hér á landi á fyrstu sjö mánuðum ársins 2023 voru jafn mörg og öll greind tilfelli árið 2022, samtals 50 tilfelli. Það stefni því í að heildarfjöldi tilfella af sárasótt á árinu 2023 verði sá hæsti síðan 2017. Karlmenn eru í meirihluta þeirra sem greinast hér á landi með sárasótt.
Aukning á tilfellum lekanda árin 2022 og 2023 sést einnig á hinum Norðurlöndunum og í mörgum löndum Evrópu að sögn landlæknisembættisins. Á Írlandi hafa tilkynningar vegna klamydíu og lekanda aukist á árinu 2023 samanborið við sömu vikur ársins 2022. Í Noregi var hlutfallsleg aukning á lekanda á árinu 2022 mest hjá ungum konum. Heilt yfir í Evrópu er tíðnin þó mun hærri hjá karlmönnum.
Samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins var yfir helmingur lekandatilfella ársins 2021 í löndum ESB/EES meðal karlmanna sem stunda kynlíf með körlum en sambærileg úttekt hefur ekki verið gerð fyrir undanfarin tvö ár. Koma má í veg fyrir lekandasmit með notkun smokka við kynlíf.