Millilandaflugið er hafið á nýjan leik eftir að sex tíma verkfalli flugumferðarstjóra lauk klukkan 10 í morgun.
Fyrstu flugvélar fóru frá landinu á tíunda tímanum og fyrstu flugvélar komu til landsins frá Norður Ameríku á ellefta tímanum.
Þetta var önnur lota í verkfalli flugumferðarstjóra en tvær aðrar hafa verið boðaðar í næstu viku, á mánudaginn og á miðvikudaginn, ef ekki semst í kjaradeilu þeirra við Samtök atvinnulífsins, sem semur fyrir hönd Isavia. Fundur í deilunni hefur verið boðaður í húsakynnum sáttasemjara klukkan 14 í dag.
„Ég veit ekki betur en allt hafi gengið vel í morgun og við höfum bara verið að vinna eftir þeirri áætlun sem við sendum út í gær. Við fylgjumst með hvernig málin þróast varðandi næstu viku og vonandi kemur einhver lausn í þessari deilu í millitíðinni,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, við mbl.is.