Nýr hitaveitutankur var vígður á Reynisvatnsheiði í dag. Tankurinn var reistur til að mæta aukinni eftirspurn eftir heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu en með honum verður aukning á birgðum 25%. Vatni verður dælt inn á geyminn þann 19. desember og þar með verður tankurinn kominn í rekstur.
Veitur stóð fyrir veglegri vígsluathöfn í nýja hitaveitutanknum á Reynisvatnsheiði í dag. Þar gafst gestum tækifæri á að skoða sig um í tanknum áður en honum verður lokað á morgun og vatni dælt inn á hann á þriðjudag í næstu viku. Tankurinn er einn af fjórum talsins á Reynisvatnsheiði, en hver þeirra rúmar um 9.000 rúmmetra af um það bil 80 gráðu heitu vatni.
Það var sannarlega á áætlun Veitna að reisa nýjan tank á heiðinni á næstu árum. Í kjölfar kuldatíðar síðastliðin vetur var þó ákveðið að flýta framkvæmdinni til að vera betur undirbúinn undir yfirstandandi vetur, segir Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna.
Samþykkt var að flýta framkvæmdinni þann 19. janúar og var strax hafist handa við að hanna tankinn og bjóða út verkið, segir Þórður Ásmundsson, verkefnastjóri verksins. Ákveðið var að skipt verkinu upp í þrjá fasa bætir hann við og lýsir því fyrir blaðamanni að stálvirki tanksins hafi verið hannað á meðan jarðvinnan var unnin og klæðningin síðan hönnuð á meðan tankurinn var reistur.
„Svo vannst þetta svona vel,“ segir Þórður.
Þórður segir tankinn í raun hafa verið tilbúinn, til að láta renna í hann, fyrir um tveimur vikum. Þegar blaðamaður spyr hvers vegna tankurinn hafi ekki verið tekinn í notkun um leið, liggur ekki á svörum.
„Til að halda veisluna,“ svarar Þórður kíminn, en útskýrir að enn sé ýmislegt eftir. Það átti til að mynda eftir að klára að loka þakinu, en því var lokað í gær, síðan á enn eftir að klára að klæða tankinn alveg, segir Þórður.
Þrátt fyrir að ekki sé búið að fullklæða tankinn verður honum lokað á morgun og vatn látið renna í hann á þriðjudag. „Þá fer vatnið bara að streyma úr honum til höfuðborgarinnar,“ segir Þórður ánægður með framgang verkefnisins, sem kemur til með að ljúka um mánuði fyrr en bjartsýnustu menn þorðu að binda vonir við.
„Ef við gætum rekið öll okkar verkefni með þessum hætti þá værum við með ótrúlega mikið af fyrirmyndar verkefnum í gangi. Þetta er búið að ganga ótrúlega vel og hefur verið ótrúlega vel stýrt, þannig að þetta verður verkefni sem við lítum til,“ segir Sólrún en bætir við að framgangur verkefna sé þó ekki alltaf í höndum Veitna.
Þetta hlýtur að vera mikil búbót fyrir höfuðborgarsvæðið?
„Þetta er 25% aukning á birgðum og nýtist okkur sem forði í kuldaköstum. Þetta er ekki síður rekstraröryggi fyrir hitaveituna því ef að eitthvað kemur upp á þá eru þetta birgðir sem nýtast til að takast á við það sem þarf að gera. Hafa samband gera ráðstafanir, þegar og ef það kemur til skerðinga,“ segir Hrefna Hallgrímsdóttir, forstöðumaður hitaveitunnar.
Sólrún tekur undir þessi orð Hrefnu og bætir við að í fyrra hafi virkjanir farið út. Hún segir muna miklu að hafa fleiri klukkustundir til að vinna viðbragð þegar virkjanir detti úr, sérstaklega til að þurfa ekki að skerða birgðir þegar upp kemur alvarleg bilun.
„Þetta mun ekki koma í veg fyrir það, ef við lendum í alvarlegum bilunum, að við þurfum aldrei að skerða en hins vegar munum við hafa viðbragð til þess að vinna með það,“ segir Hrefna.
Þórður segir þetta þannig ákveðið rekstraröryggi en jafnframt öryggi fyrir starfsfólk. Enda hafi starfsfólk nú meiri tíma til að undirbúa sig, getur unnið verkið betur og tekið réttar ákvarðanir, segir hann.
„Heldur en að starfsfólk sé að vinna undir miklu álagi, þá kannski tekur það rangar ákvarðanir, sem bitna á öryggi fólks og á íbúum höfuðborgarsvæðisins,“ segir Þórður.
Áætlaður kostnaður við verkið var um 630 milljónir og Þórður segir endanlegan kostnað líklega verða milli 650-660 milljóna.
Spurð hversu lengi tankarnir anni eftirspurn segir Hrefna áform um að halda áfram uppbyggingu tanka á svæðinu í takt við stækkun höfuðborgarsvæðisins.
„Þú ert með ákveðna eftirspurn og þarft að vera með varabirgðir í samræmi við það,“ segir hún.
Hvenær megum við þá búast við næsta tanki?
„Hann er á áætlun, það er ekki langt í næsta tank,“ segir Sólrún.
Kemur tankurinn í veg fyrir að loka þurfi sundlaugum í vetur?
„Ef við þurfum að horfast við sambærilegt ástand og síðasta vetur, þar sem við erum með viðvarandi löng kuldaköst og jafnvel krefjandi vindafar með því. Þá getur komið til þess að við þurfum að skerða sundlaugarnar, sem er eðlilegt, vegna þess að þannig er viðskiptalíkan hitaveitu.
Við höfum tækifæri til að skerða stórnotendur, þar eru ekki sundlaugar eingöngu, fyrir vikið fá sundlaugar og aðrir stórnotendur hagkvæmari kjör. Þannig að þetta er gert til þess að takast á við allra kröppustu toppana og allt sem við gerum í vinnunni er til þess að koma í veg fyrir að það þurfi að grípa til þessa úrræðis, en það er hins vegar algjörlega eðlilegt,“ segir Hrefna.
Til útskýringar segir Hrefna að ef stórnotendur hitaveitunnar væru ekki á hagkvæmum taxta þá væri veitukerfið í 99,999% tilfella of stórt fyrir stórhöfuðborgarsvæðið. Hún segir það ekki vel farið með almannafé eða í samræmi við skynsamlegar fjárfestingar, enda ekki alltaf hægt að sjá fyrir um hversu mikil kuldatíð verður þann veturinn.
Jara Hilmarsdóttir sönkona tók nokkur vel valin lög fyrir viðstadda. Hægt er að hlusta á tóndæmi úr tankinum hér að neðan.