Nonni kveður Nonnabita eftir 30 ár

Jón Guðnason hefur steikt báta ofan í Íslendinga á Nonnabita …
Jón Guðnason hefur steikt báta ofan í Íslendinga á Nonnabita í þrjá áratugi en telur nú tímabært að snúa sér að öðru. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta fylgir þessu þegar menn eldast. Ég er orðinn 67 ára og eðlilegt að fara að huga að öðru,“ segir Jón Guðnason veitingamaður. Jón hefur sett vinsælan veitingastað sinn, Nonnabita, á sölu eftir 30 ára rekstur.

Nonnabiti er í Bæjarlind í Kópavogi en var um langt árabil einnig í miðborg Reykjavíkur og naut mikilla vinsælda meðal fólks sem stundaði næturlífið. Nonnabiti fagnaði 30 ára afmæli í október síðastliðnum.

Saknar ekki nætursölunnar

Jón opnaði staðinn árið 1993 í Hafnarstræti 18. Spilatækjasalurinn Freddi var við hliðina og sló Nonni strax í gegn meðal yngri kynslóðarinnar. Um helgar var opið fram eftir nóttu og staðurinn jafnan smekkfullur eftir að börunum var lokað. Svo mikil var ásóknin í staðinn að stækkunar var þörf og Nonni flutti sig yfir í Hafnarstræti 9.

Síðar keypti hann húsnæði í Hafnarstræti 11 þar sem Ásgeir Davíðsson, Geiri á Goldfinger, hafði um árabil rekið umtalaðan bar sem nefndist Hafnarkráin. „Hann var með svakalegt viskí-safn þar, var góður í því,“ segir Nonni.

Staðnum í Hafnarstræti var lokað árið 2019 og á þeim tíma kvartaði Nonni undan rekstrarumhverfi í miðbænum eftir að þrengt var að bílaumferð. Hann segir að þótt árin í miðbænum hafi verið góð sakni hann ekki nætursölunnar. „Nei, guð minn góður! Það hafa líka orðið miklar breytingar á miðbænum. Hann er ekkert fyrir Íslendinga lengur, hann er bara fyrir útlendinga.“

Beikonbáturinn er langvinsælastur

Bátarnir hafa frá upphafi verið aðalsmerki staðarins og hafa viðskiptavinir getað valið úr fjölbreyttum útfærslum; kjúklinga-, kalkúna-, rækju-, skinku- og pepperonibátum svo fáeinir séu nefndir. Einn hefur þó notið mestra vinsælda frá upphafi: „Beikonbáturinn er langvinsælastur. Svo koma hinir í röð á eftir,“ segir Nonni sem sjálfur hefur jafnan gengið í öll störf. Kannast eflaust margir við rödd hans þegar kallað er yfir staðinn: „Allt á rækjubát?“

Nonni hefur með árunum stækkað matseðilinn og þannig getað þjónað breiðari kúnnahópi í Kópavogi. Einhverjum kann að koma á óvart að í dag er bæði hægt að fá salöt og ketórétti hjá Nonna. „En þetta byggist á bátunum,“ segir hann og bætir aðspurður við að alls konar fólk sæki staðinn í dag, bæði fólk sem vinnur í næsta nágrenni og það sem býr í hverfunum í kring.

Lifa lífinu pínulítið

Fyrir vikið ætti að vera mikill áhugi á staðnum sem nú er auglýstur til sölu. „Já, Mér skilst að sölumaðurinn sé bara nokkuð ánægður með viðtökurnar og hvaða fólk hafi verið að spyrjast fyrir. Maður veit þó ekkert hvernig þetta fer, það bara kemur þegar það kemur.“

Jón var farinn að minnka við sig á staðnum fyrir nokkru og sonur hans stóð að mestu í brúnni. Hann ákvað svo að snúa sér að lögfræðinámi og þá tók Jón aftur við. Planið er að njóta lífsins þegar Nonnabiti verður kominn í hendur nýrra eigenda. „Já, ætli maður reyni ekki að hafa það notalegt og þægilegt. Það verður gott að geta verið meira með frúnni og barnabörnunum, lifa lífinu pínulítið áður en maður gufar upp að endingu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert