Sendi stjúpdóttur sinni ruddaleg og ósiðleg skilaboð

Í dómi héraðsdóms segir að skilaboðin séu óviðeigandi í samskiptum …
Í dómi héraðsdóms segir að skilaboðin séu óviðeigandi í samskiptum fólks og þá sérstaklega í samskiptum fullorðins manns við ungling. Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjaness hefur sakfellt karlmann fyrir hótanir og brot gegn barnaverndarlögum er hann sendi stjúpdóttur sinni á unglingsaldri ruddaleg og ósiðleg skilaboð. Var maðurinn dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða stúlkunni 200.000 kr. í miskabætur. 

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákærði manninn í júlí fyrir umsáturseinelti, en til vara hótanir og barnaverndarlagabrot, með því að hafa á tímabilinu frá 26. október 2022 til 28. október 2022, endurtekið hótað og sett sig í samband við stúlkuna, sem var dóttir sambýliskonu hans. Á þessu tímabili sendi hann stúlkunni 48 skilaboð, ýmist skrifleg eða hljóðskilaboð, sem voru smánandi, vanvirðandi, ógnandi, ruddaleg og móðgandi en skilaboðin voru til þess fallin að valda hræðslu og kvíða hjá stúlkunni. 

„Sendi menn á eftir þér“

Eftirfarandi eru dæmi um skilaboð sem maðurinn sendi stúlkunni:

„Heyrðu litla fokking aumingja tussan þín segðu bara það sem þú þarft að segja hreint út ég er kominn með svo mikið nóg af þér, búinn að reyna að vera bara eins mikið næs við þig og ég get og veistu það fokkaðu þér. Drullastu og drepstu í fokking tussunni á þér“.

„Er það kannski þarna jólin sem þú skemmdir fyrir okkur öllum eða? Sýndu mér endilega þetta fokking vídjó, ef þú gerir það ekki þá fokking sendi ég menn á eftir þér.“

Sagðist hafa verið á slæmum stað

Maðurinn fór fram á sýknu í málinu. Fyrir dómi sagði hann að ástæða þess að hann hefði sent m.a. ofangreind skilaboð hefði verið sú að að hann hefði sent fullorðinni manneskju kynferðisleg skilaboð sem stúlkan hefði síðan fengið og upplýst aðra fjölskyldumeðlimi um skilaboðin. Stúlkan hefði síðan sent honum skilaboð vegna þessa og hann brugðist illa við.

Maðurinn kvaðst hafa verið á slæmum stað þegar hann sendi umrædd skilaboð til stúlkunnar. Hann hefði verið í andlegu ójafnvægi og orðið á vegna þess. Hann kvaðst hafa glímt við geðræn vandamál og verið nýlega kominn af geðdeild þegar hann hafi sent skilaboðin.

Óviðeigandi samskipti

Í dómi héraðsdóms segir að skilaboðin, sem maðurinn hefur viðurkennt að hafa sent, séu óviðeigandi í samskiptum fólks og þá sérstaklega í samskiptum fullorðins manns við ungling. 

„Þá verður og í því sambandi að hafa í huga að ákærði er sambýlismaður móður brotaþola og það bar honum að hafa í huga og gæta varfærni í samskiptum við brotaþola í samræmi við það. Í hluta skilaboðanna felast hótanir af hálfu ákærða þar sem hann segist ætla að senda menn á eftir brotaþola og þar sem hann segir brotaþola að senda föður sinn á ákærða ef hún haldi að faðir hennar geti lamið ákærða en hann lofi þá að faðir brotaþola fari í burtu á sjúkrabifreið. Öll skilaboðin voru ruddaleg og ósiðleg og að hluta til hótanir,“ segir í dómi héraðsdóms.

Þá kemur fram, að stúlkan hafi viðurkennt að hafa að hluta til átt frumkvæði að því að senda manninum skilaboð og það liggi fyrir að einhver skilaboð frá henni hafi einnig verið óviðeigandi.

„Það getur hins vegar ekki breytt því að fullorðinn einstaklingur á ekki að bregðast við skilaboðum frá unglingi, þrátt fyrir það að þau séu óviðeigandi, með því að senda skilaboð með því innihaldi sem ákærði gerði hvorki skriflega né í hljóði.“

Þá segir að maðurinn hafi ekki áður hlotið refsingu sem skipti máli við ákvörðun refsingar í þessu máli. „Það kom fram hjá ákærða fyrir dómi að hann sjái eftir að hafa sent brotaþola umrædd skilaboð og hann hafi reynt að biðja hana afsökunar á framkomu sinni. Það var staðfest af brotaþola,“ segir í dómi hérðadsóms sem ákvað refsingu hans með hliðsjón af þessu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert