„Það er allt út í sandi og drullu og ógeði þarna í kring. Þetta er svolítið eins og sprengjusvæði.“
Þetta segir Ágúst Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Vík í Mýrdal, en sjór gekk inn á bílaplanið við Veitingahúsið Svörtu fjöruna í Reynishverfi nærri Reynisfjöru í stórstreymi í nótt. Þá skemmdist vegurinn út á Reynisfjöru töluvert í áganginum.
„Sjórinn tók skarð í veginn hjá okkur og mokaði stórgrýti inn á planið. Það þarf að hreinsa það út með einhverjum vélum þannig að hægt verði að keyra bíl inn á það.“
Ágúst segir húsið sjálft ekki í hættu þar sem það standi upp á eins konar púða. Þá segir hann að hann hafi ekki heyrt af öðrum skemmdum vegna stórstreymis og að varnargarðar hafi haldið í Vík þó mikið hafi mætt á.
„Þetta gerist á einhverra ára fresti. Planið er venjulega rennislétt en nú eru bara grjót á stærð við körfubolta um allt.“
Ágúst segir að stærsta streymi sé spáð á morgun þannig að það verði ekkert farið í lagfæringar fyrr en eftir morgundaginn.
„Við setjum bara lokun á neðra planið og byrjum að laga vegskemmdirnar en svo ætla landeigendur að laga planið eftir morgundaginn.“