Hæstiréttur hefur samþykkt beiðni um áfrýjunarleyfi til handa konu sem beið líkamstjón af er festing stóls á hárgreiðslustofu, sem hún sat í, brotnaði með þeim afleiðingum að hún féll á gólfið. Gagnaðili í málinu, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., leggst gegn beiðninni.
Var tryggingafélagið dæmt bótaskylt í héraði úr frjálsri ábyrgðartryggingu stofunnar en Landsréttur sneri þeirri niðurstöðu og sýknaði Sjóvá af kröfu konunnar.
Lýtur ágreiningur málsaðila að því hvort meiðsl tjónþola verði rakið til saknæmrar háttsemi þannig að varði bótaskyldu eða hvort um óhappatilvik hafi verið að ræða. Lagði Landsréttur til grundvallar að orsök slyssins hefði verið að málmfesting á armi undir stólnum hefði brotnað en ekki lægi fyrir hvers vegna.
Féllst rétturinn ekki á að hárgreiðslustofan hefði vanrækt eftirlit eða viðhald stólsins þannig að saknæmt teldist en komst að þeirri niðurstöðu að miða yrði við að Sjóvá-Almennar hefðu ekki kynnt vátryggingartaka kröfuna án ástæðulauss dráttar. Það hafi verið gert rúmum fjórum mánuðum síðar og viðgerð á stólnum þá þegar farið fram.
Ekki væri ágreiningur um aðdraganda slyssins og teldust atvik nægilega upplýst til að slá mætti því föstu að slysið yrði ekki rakið til saknæmrar háttsemi vátryggingartaka, það er að segja hárgreiðslustofunnar. Hefði það atriði því ekki þýðingu þótt ekki hefði verið rannsakað sérstaklega hvers vegna festingin brast. Taldi Landsréttur um óhappatilvik að ræða.
Tjónþoli byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, atvik séu ekki nægilega upplýst til að slá megi því föstu að slysið verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi vátryggingartaka. Sé tjónþoli þar með látinn bera halla af því að óútskýrt sé hvers vegna málmfesting stólsins brotnaði. Sé það tryggingafélagið sem þar skuli bera halla af sönnunarskorti.
Þá hafi úrslit málsins verulegt almennt gildi þar sem ekki hafi áður reynt á það fyrir dómstólum hvaða áhrif það hefði á sönnunarstöðu aðila þegar tryggingafélag fylgdi ekki fyrirmælum laga, það er að tilkynna tryggingartaka um kröfu án ástæðulauss dráttar, með þeim afleiðingum að sönnunargögn fari forgörðum.
Telur Hæstiréttur, að virtum málsgögnum, að dómur í málinu geti haft fordæmisgildi, meðal annars hvað varðar skýringu á skyldum vátryggingafélags samkvæmt þeirri grein vátryggingalaga er fjallar um tilkynningu án ástæðulauss dráttar. Samþykkti rétturinn beiðnina með þeim rökum.