Ákveðið hefur verið að seinka opnun skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli á Akureyri um eina viku vegna snjóleysis.
Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjar en þar segir að síðastliðna mánuði hafi starfsfólk unnið hörðum höndum að því að undirbúa vetraropnun og stefnt var að því að opna svæðið fyrir skíðafólki föstudaginn 15. desember. Því miður hefur vetur konungur lítið látið á sér bera og þrátt fyrir kuldatíð er ljóst að töluvert meiri snjó þarf til þess að hægt sé að opna skíðasvæðið.
„Eftir að hafa farið vandlega yfir aðstæður og horfur næstu daga, hefur verið ákveðið að seinka opnun til föstudagsins 22. desember. Snjóframleiðsla verður keyrð á fullu næstu daga ef aðstæður leyfa og starfsfólk Hlíðarfjalls leggst á bæn um að fá "hvíta gullið" sem fyrst af himnum ofan,“ segir á vef Akureyrar.