Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Oscar Campos Roca í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa smyglað til landsins, í gegnum Keflavíkurflugvöll, tæplega 2,3 kílóum af kókaíni þann 14. október síðastliðinn.
Auk þess að sæta þriggja ára fangelsisvist er honum gert að greiða 1.032.322 króna þóknun skipaðs verjanda síns. Maðurinn játaði brot sitt við þingfestingu málsins þann 12. desember.
Fram kemur að kókaínið hafi verið með á bilinu 61-77% styrkleika og var ætlað til söludreifingar hér á landi. Maðurinn kom sem ferðamaður til landsins og voru fíkniefnin í ferðatösku hans.
„Af rannsóknargögnum málsins verður ekki séð að ákærði hafi verið eigandi fíkniefnanna eða skipuleggjandi innflutningsins en hefur hann samþykkt að flytja efnin til landsins gegn greiðslu,“ segir meðal annars í dómnum.