Tveir milljarðar til Palestínu frá 2011

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heildarframlög íslenskra stjórnvalda til Palestínu og flóttamanna frá Palestínu á árunum 2011 til 2023 nema rúmum tveimur milljörðum króna.

Þetta kemur fram í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Rögnu Sigurðardóttur, varaþingmanni Samfylkingarinnar.

Árið 2011 nam framlag stjórnvalda 108,5 milljónum króna, árið 2022 var það komið upp í 164,7 milljónir en á þessu ári nam það 422,8 milljónum króna. Samanlögð upphæð allra áranna er 2.087,8 milljónir króna.

Ragna Sigurðardóttir.
Ragna Sigurðardóttir. Ungir jafnaðarmenn/Hari

Í svarinu kemur fram að hækkun framlaga á milli áranna 2022 og 2023 skýrist aðallega af viðbótarframlögum íslenskra stjórnvalda til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) vegna stöðu mannúðarmála á Gasasvæðinu, samtals að upphæð 225 milljónir króna.

Þar segir að Ísland sé meðal þeirra ríkja sem leggi mest til UNRWA miðað við höfðatölu.

Ráðherra var einnig spurður að því hvort hann hefði átt samtal við utanríkisráðherra annarra ríkja um aðgerðir, svo sem þvingunaraðgerðir, gagnvart Ísrael.

Í svarinu segir að engin umræða um slíkar aðgerðir hafi farið fram, hvorki á vettvangi ESB né í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

„Engar heimildir eru í íslenskum lögum og engin fordæmi fyrir því að Ísland setji einhliða séríslenskar þvingunaraðgerðir,“ segir í svarinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert