Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF), segir í samtali við mbl.is að lítið hafi þokast áfram í kjaradeilu flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins á samningafundi hjá ríkissáttasemjara sem lauk um klukkan 17 í dag. Hann útilokar ekki vinnustöðvanir yfir jólahátíðina.
Fundurinn í dag varði í þrjá tíma, á milli klukkan 14-17, en að vísu með klukkutíma hléi.
„Staðan er bara svipuð og í gær,“ segir Arnar spurður hvort eitthvað hafi þokast áfram í viðræðunum. Búið er að boða annan fund á morgun klukkan 10.
Flugumferðarstjórar hafa boðað vinnustöðvun í næstu viku á mánudag og miðvikudag á Keflavíkurflugvelli en þau verða frá klukkan 4 að nóttu til 10 að morgni. Spurður hvort fleiri aðgerðir hafi verið ákveðnar segir hann svo ekki vera.
En þið útilokið ekki verkföll um jólin?
„Nei nei ekkert frekar en hitt. Eins og ég segi þá hefur ekkert verið ákveðið, þannig það er þá bara opið í báða enda,“ segir hann.