Verkföll í næstu viku ná aðeins til Keflavíkurflugvallar

Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra.
Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verkföll sem flugumferðarstjórar hafa boðað í næstu viku, á mánudag og á miðvikudag, ná bara til Keflavíkurflugvallar. Innanlandsflugið ætti því að ganga eðlilega fyrir sig á þessum dögum.

Þetta staðfestir Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, í samtali við mbl.is en tímasetningin á fyrirhuguðum verkföllum í næstu viku verður frá klukkan 4 að nóttu til 10 að morgni.

Annarri lotu verkfallsaðgerða flugumferðarstjóra lauk klukkan 10 í morgun en klukkan 14 í dag hefur verið boðað til fundar í kjaradeilu flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Isavia í húsakynnum sáttasemjara.

Birgir Jónsson, forstjóri Play, og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segja að aðgerðir flugumferðarstjóra sé einkum beint gegn íslensku flugfélögunum. 

Arnar sagði í samtali við mbl.is í gærkvöld að í gildandi samningum félagsins sé ákvæði um að vinnudeilur þeirra bitni ekki á þriðja aðila. Þá er verið að vísa til yfirflugs á flugstjórnarsvæði Íslands. Félagið hafi ekki fyrirgert verkfallsrétti sínum þar, en ef gripið væri til slíkra aðgerða þá væri það brot á gildandi samningum.

Um frekari útskýringu á þessum gildandi samningi segir Arnar:

„Við erum með samkomulag sem var gert samhliða síðasta kjarasamningi, sem gildir lengur en kjarasamningurinn, um skertan verkfallsrétt þannig að við getum ekki farið í aðgerðir gagnvart flugi sem ekki hefur viðkomu á Íslandi. Þar með eru hendur okkar bundnar að því leyti. Það er því eðlilegt að þessar verkfallsaðgerðir hafi mest áhrif á tvö stærstu flugfélögin,“ segir Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert