Vinnustöðvun hafin á ný

Tímabundin vinnustöðvun flugumferðarstjóra hófst klukkan fjögur í nótt og stendur yfir í sex klukkustundir eða til klukkan tíu.

Þetta er önnur tímabundin vinnustöðvun flugumferðarstjóra sem knýja á um betri kjör. Boðað hefur verið til frekari vinnustöðvana á mánudag og miðvikudag í næstu viku náist samningar ekki fyrir þann tíma.

Samningsaðilar settust ekki við samningsborðið í gær en Arnar Hjálmsson, formaður Fé­lags ís­lenskra flug­um­ferðar­stjóra (FÍF), sagði í gær í samtali við mbl.is að eitthvað hafi verið um óformlegar þreifingar. Boðað hefur verið til samningafundar í kjaradeilunni í Karphúsinu klukkan 14 í dag.

Hefur keðjuverkandi áhrif

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í samtali við mbl.is í gær að vinnustöðvun dagsins hafi áhrif á um 60 flug á vegum félagsins og um 8.300 farþega félagsins.

„Verk­fallið mun hafa áhrif á flug sem er á ætl­un snemma í fyrra­málið frá Norður-Am­er­íku til Íslands og flugi frá Íslandi til Evr­ópu mun seinka. Hef­ur það keðju­verk­andi áhrif á flug síðdeg­is, bæði til og frá Evr­ópu til Íslands og frá Íslandi til Norður-Am­er­íku og Evr­ópu,“ sagði í tilkynningu frá Icelandair í gær.

Ráðherrar hafa sagt þjóðhagslega mikilvægt að deilan leysist sem fyrst en ekki hefur verið rætt um að stíga inn í deiluna með lagasetningu.

Birg­ir Jónsson, forstjóri Play, sagði í samtali við mbl.is í gær að fólk eigi að flýta sér hægt að grípa til laga­setn­ing­ar til að leysa vinnu­deil­ur.

„Ég ber virðingu fyr­ir verk­falls­rétt­in­um og kjara­bar­áttu fólks og ég tel því að það ætti að fara ró­lega í að grípa til slíkra ráða. En hins veg­ar verður að horfa til þess að deil­an er ólík­lega að fara að leys­ast eins og mál­in horfa núna og gríðarleg­ir hags­mun­ir eru und­ir. Eitt­hvað þarf að koma til því að viðsemj­end­un­um ligg­ur ekk­ert á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert