Tímabundin vinnustöðvun flugumferðarstjóra hófst klukkan fjögur í nótt og stendur yfir í sex klukkustundir eða til klukkan tíu.
Þetta er önnur tímabundin vinnustöðvun flugumferðarstjóra sem knýja á um betri kjör. Boðað hefur verið til frekari vinnustöðvana á mánudag og miðvikudag í næstu viku náist samningar ekki fyrir þann tíma.
Samningsaðilar settust ekki við samningsborðið í gær en Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF), sagði í gær í samtali við mbl.is að eitthvað hafi verið um óformlegar þreifingar. Boðað hefur verið til samningafundar í kjaradeilunni í Karphúsinu klukkan 14 í dag.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í samtali við mbl.is í gær að vinnustöðvun dagsins hafi áhrif á um 60 flug á vegum félagsins og um 8.300 farþega félagsins.
„Verkfallið mun hafa áhrif á flug sem er á ætlun snemma í fyrramálið frá Norður-Ameríku til Íslands og flugi frá Íslandi til Evrópu mun seinka. Hefur það keðjuverkandi áhrif á flug síðdegis, bæði til og frá Evrópu til Íslands og frá Íslandi til Norður-Ameríku og Evrópu,“ sagði í tilkynningu frá Icelandair í gær.
Ráðherrar hafa sagt þjóðhagslega mikilvægt að deilan leysist sem fyrst en ekki hefur verið rætt um að stíga inn í deiluna með lagasetningu.
Birgir Jónsson, forstjóri Play, sagði í samtali við mbl.is í gær að fólk eigi að flýta sér hægt að grípa til lagasetningar til að leysa vinnudeilur.
„Ég ber virðingu fyrir verkfallsréttinum og kjarabaráttu fólks og ég tel því að það ætti að fara rólega í að grípa til slíkra ráða. En hins vegar verður að horfa til þess að deilan er ólíklega að fara að leysast eins og málin horfa núna og gríðarlegir hagsmunir eru undir. Eitthvað þarf að koma til því að viðsemjendunum liggur ekkert á.“