Vara við „fjöldauppsögnum ungra íslenskra vísindamanna“

Vísindamenn fjölmenntu á Alþingi í dag þar sem rætt var …
Vísindamenn fjölmenntu á Alþingi í dag þar sem rætt var um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tugir vísindamanna lögðu leið sína á Alþingi í dag til þess að mótmæla yfirvofandi niðurskurði til samkeppnissjóða Vísinda-og tækniráðs, en í dag fóru fram umræður um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

Niðurskurðurinn, sem gert er grein fyrir í fjárlagafrumvarpi ársins 2024, nemur rúmum einum milljarði króna.   

Eitt þúsund vísindamenn skora á stjórnvöld

Í tilkynningu sem íslenskir vísindamenn sendu frá sér í gær kemur fram að með fyrirhuguðum niðurskurði til samkeppnissjóða Vísinda-og tækniráðs sé verið að höggva í undirstöður þess öfluga nýsköpunargeira sem þróast hafi á Íslandi á undanförnum árum. Þá séu fjárveitingar til hans nú þegar mun lægri en í sambærilega sjóði í nágrannalöndunum. 

Niðurskurðurinn hefur sætt mikilli gagnrýni af hálfu vísindasamfélagsins frá því gert var grein fyrir honum í fjárlagafrumvarpi ársins 2024 og hafa rúmlega eitt þúsund vísindamenn á Íslandi skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að falla frá niðurskurði til vísinda. 

Vísindamenn hafa lýst yfir óánægju sinni yfir fyrirhuguðum niðurskurði til …
Vísindamenn hafa lýst yfir óánægju sinni yfir fyrirhuguðum niðurskurði til samkeppnissjóða Vísinda-og tækniráðs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Niðurskurðurinn samsvari ársverkum 70 doktorsnema

Vísindamenn hafa jafnframt varað við miklum atgervisflótta ungra vísindamanna úr íslensku vísindasamfélagi strax á næsta ári. 

„Niðurskurður á rannsóknarsjóði einum og sér nemur hálfum milljarði, en það samsvarar ársverkum 70 doktorsnema. Það má því segja að fyrir liggi fjöldauppsögn ríkisins á ungum íslenskum vísindamönnum,“ segir í tilkynningu íslenskra vísindamanna. 

Þar segir einnig að niðurskurðurinn sé þversagnarkenndur þar sem hann haldi aftur að nýsköpun sem sé á meðal helstu áhersluatriða íslenskra stjórnvalda. Ætli stjórnvöld sér að halda áfram að efla nýsköpun í landinu sé nauðsynlegt að efla samkeppnissjóð vísinda um leið til þess að koma í veg fyrir að ný fyrirtæki strandi vegna skorts á starfsfólki. 

Rúmlega eitt þúsund vísindamenn á Íslandi hafa skrifað undir áskorun …
Rúmlega eitt þúsund vísindamenn á Íslandi hafa skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að falla frá fyrirhuguðum niðurskurði til vísinda. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka