Samtals hafa 208 vændismál komið inn á borð lögreglunnar á síðustu fimm árum. Síðan lögum var breytt árið 2009 og bann við kaupum á vændi tók gildi hafa 562 mál komið upp, eða 37,5 mál árlega.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Brynhildar Björnsdóttur, varaþingmanns Vinstri grænna.
Á síðustu fimm árum hafa fallið fimm dómar í tengslum við vændi og 72 verið sektaðir. Þess ber þó að geta að ekki kemur fram hvort sýknað eða sakfellt var í dómunum sem féllu.
Ef horft er til ársins 2009 hafa 104 dómar fallið og 82 verið sektaðir. Sektarmeðferð vegna þessara brota hófst þó ekki fyrr en árið 2017. Að meðaltali hafa því fallið 6,9 dómar í vændismálum á ári síðan 2009 og 5,5 mál farið í sektarmeðferð síðan 2017.
Langflest mál komu upp árið 2013, en þá féllu 64 dómar um vændi.
Ef horft er til hlutfalls mála sem hafa komið upp frá 2009, sem eru samtals 562 mál, þá hefur 186 þeirra lokið með annað hvort sekt eða dómi. Það gerir um 33,1% málanna. Þó ber að hafa í huga að 14 mál hafa komið upp á þessu ári og enginn dómur fallið það sem af er ári, þótt tvö mál hafi endað í sektargreiðslu. Séu ný mál á þessu ári tekin út fyrir tölfræðina eru það engu að síður um 33,9% mála sem hafa endað með sekt eða dómi.
Í svari dómsmálaráðherra kemur fram að ekki hafi reynst unnt að taka saman upplýsingar um sekt eða sýknu vegna umfangs þeirrar vinnu sem það hefði í för með sér.