Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, segir mjög brýnt að um semjist í deilu flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins, sem semur fyrir hönd Isavia.
„Ábyrgð þessara aðila er mikil. Þetta er síðasta skrefið í kjaralotu síðustu kjarasamninga en er ekki upphaf af kjaraviðræðum á komandi ári. Ég geri ráð fyrir því að menn finni það hjá sér til hvers er ætlast af þeim og axli þá ábyrgð sem þeir bera,“ segir Þórdís Kolbrún við mbl.is.
Annarri lotu verkfallsaðgerða flugumferðarstjóra lauk í gærmorgun en þeir hafa boðað tvær vinnustöðvanir í næstu viku, á mánudag og miðvikudag. Spurð hvort ríkisstjórnin hyggist grípa inn i deiluna segir Þórdís Kolbrún:
„Það er ekki eitthvað sem ég segi nokkuð um á þessum tímapunkti enda eru viðræðurnar á milli aðilanna í gangi og meðan svo er þá höldum við í vonina um að samningar náist,“ segir Þórdís Kolbrún.
Fundur flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins hófst í húsakynnum sáttasemjara klukkan 10 í morgun.