Meðalbiðtími þeirra sem bíða eftir afplánun hér á landi er rúmlega eitt ár og tíu mánuðir. Rúmlega 260 manns bíða þessa stundina eftir því að hefja afplánun. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, þingmanns Viðreisnar.
Fram kemur í svarinu að í dag séu samtals 238 karlar á boðunarlista eftir afplánun. Á sama tíma eru 24 konur á boðunarlista.
Tekið er fram að rétt sé hins vegar að hafa í huga að erfitt sé að tilgreina raunverulegan meðalbiðtíma þar sem sá tími sem líður frá því að dómþoli er boðaður til afplánunar þar til afplánun hefst er alls ekki alltaf eiginlegur biðtími.
Í svarinu eru talin upp nokkur tilvik sem geta haft áhrif á raunverulegan meðalbiðtíma. Meðal annars umsóknir dómþola um samfélagsþjónustu og umsóknir um frest á afplánun, auk þess sem þeir geta sótt um endurupptöku á ákvörðun um synjun.
Fyrir skömmu komu út tvær skýrslur sem sýndu fram á slæma stöðu fangelsismála hér á landi. Annars vegar var það skýrsla Ríkisendurskoðunar um rekstur og málefni Fangelsismálastofnunar. Er þar meðal annars vísað til þungrar rekstrarstöðu Fangelsismálastofnunar og að niðurskurður í fjölda ára hafi leitt til þess að ekki hefur gengið að stytta boðunarlista. Er það meðal annars vegna þess að ekki næst full nýting afplánunarrýma vegna mönnunar.
Í seinni skýrslunni, sem unnin er af umboðsmanni Alþingis, eru gerðar margvíslegar athugasemdir við aðbúnað og aðstæður fanga á Litla-Hrauni, en forstjóri Fangelsismálastofnunar hefur vísað til þess að þar strandi flest á fjármagni til stofnunarinnar.