Ríki og sveitarfélög undirrituðu í dag samkomulag um breytingu á fjárhagsramma þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk.
Samkomulagið felur í sér að útsvarsprósenta sveitarfélaga hækkar um 0,23% með samsvarandi lækkun tekjuskattsprósentu ríkisins.
Hækkunin nemur um sex milljörðum króna miðað við árið 2024, að því er segir í tilkynningu.
Í kjölfar samkomulags frá í desember 2022 fluttust 5,7 milljarðar króna frá ríki til sveitarfélaganna miðað við árið 2024 og er heildarhækkun því tæplega 12 milljarðar króna.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, skrifuðu undir samkomulagið.
„Í dag náðum við afar mikilvægum áfanga varðandi kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga í málefnum fatlaðs fólks, og það er mikið gleðiefni. Sveitarfélögin fá umtalsverða aukningu fjármagns til málaflokksins. Ríki og sveitarfélög munu líka halda áfram við kortlagningu, greiningu og gerð tillagna er snúa að börnum með fjölþættan vanda, fullorðnum sem sæta öryggisþjónustu og varðandi það að vinna niður biðlista eftir sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk. Ég hlakka til þeirrar vinnu,“ segir Guðmundur Ingi í tilkynningunni.