„Dæmigerð klækja- og valdapólitík“

Dr. Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á …
Dr. Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, segir langt í land hjá Úkraínu þrátt fyrir að ríkinu hafi verið boðið til aðildarviðræðna, þar sé enn erlendur innrásarher. Moldóva þurfi enn fremur að leggja deilur um héraðið Transnistríu. mbl.is/Hallur Már

„Að mörgu leyti er þetta dæmigerð klækja- og valdapólitík á þessu sviði,“ segir dr. Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, um afstöðu Ungverja gagnvart aðildarumsókn Úkraínumanna að Evrópusambandinu en eins og greint var frá í gær samþykkti leiðtogaráð ESB í gær að bjóða Úkraínu og Moldóvu til aðildarviðræðna við sambandið.

Ungverjar höfðu áður hótað að beita neitunarvaldi en Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, yfirgaf þess í stað salinn á meðan ákvörðunin var tekin í ráðinu og kallaði hana slæma í ummælum á samfélagsmiðlinum X.

„Oft gerist það nú að eitthvert ríki tekur sig út og notar einhver mál til að ná einhverju öðru fram og Ungverjum hefur nú tekist að nota þetta til að losa út eitthvert fé sem hafði verið fryst þeim til handa,“ heldur prófessorinn áfram.

Fjarar undan stuðningi við Úkraínu

„Við sjáum auðvitað líka að brestir eru farnir að koma í samstöðu vestrænna ríkja gagnvart stuðningi við Úkraínu og jafnvel þótt Evrópusambandið ákveði að opna á aðildarviðræður þá segir það ekkert rosalega margt um möguleika Úkraínu á að raunverulega verða aðili að bandalaginu. Hvert einasta ríki hefur neitunarvald, það er að fjara undan stuðningnum og efasemdir að rísa, til dæmis í Búlgaríu,“ segir Eiríkur enn fremur og er spurður út í ástæður þessa.

Svarar hann því til að stríðið við Rússa sé farið að dragast allmikið á langinn. „Menn voru mjög herskáir þarna í upphafi og margir höfðu einhverja draumsýn, sem ég held nú að hafi aldrei verið fyllilega raunhæf, um að hægt væri að hrinda innrás Rússa alfarið og reka þá á brott með skottið milli lappanna úr landinu. Ég held að fleiri og fleiri séu að gera sér grein fyrir því núna að það muni ekki verða, Rússar muni halda einhverjum landsvæðum,“ segir hann.

Þar með sé Úkraína í þeirri stöðu að ómögulegt sé að taka hana inn í bandalagið. „Það er einhver falskur tónn í þessu finnst manni.“

Allt á huldu með raunverulega aðild

Hvað með Viktor Orbán og hans afstöðu?

„Hún sýnir auðvitað líka hve einangraðir Ungverjar eru orðnir í bandalaginu og hve langt þeir eru komnir frá öðrum ríkjum þar og það er auðvitað eftirtektarvert að bandalagið ákvað að láta vaða þrátt fyrir að Ungverjar beiti sér gegn því, en þeim tókst reyndar að stöðva þennan fjárstuðning sem nú átti að koma [til Úkraínu] og beittu sínu neitunarvaldi til þess. Nú er búið að boða einhvern aukafund í janúar þar sem á að reyna að leysa úr því,“ segir Eiríkur.

Hann telji því að fyrirheit um að hefja viðræður tákni ekki endilega að Úkraína verði raunverulega aðili að ESB í fyrirsjáanlegri framtíð.

Hvað með Moldóvu þá?

„Það mál er líka flókið vegna Transnistríu [héraðs sem lýsti yfir stofnun sjálfstæðs sovétlýðveldis árið 1990 og hýsir að mestu rússneskumælandi íbúa], deilan um Transnistríu gerir það að verkum að það er erfitt að taka ríkið inn þótt það sé auðveldara en að taka Úkraínu inn þar sem það er nú ekki erlendur innrásarher í Moldóvu enn þá. Ríkið er nánast í skjóli Rúmeníu þannig að það yrði þá einhvern veginn þannig tenging sem gæti hleypt þeim inn,“ segir dr. Eiríkur Bergmann að lokum af málefnum Úkraínu og Moldóvu gagnvart Evrópusambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka