Fatafellumálið svokallaða barst í tal í þriðja þætti af Spursmálum þegar fréttir liðinnar viku voru gerðar upp. Þau Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar og uppistandarinn Dóri DNA krufðu helstu málin ásamt Stefáni Einari Stefánssyni, þáttastjórnanda Spursmála. Höfðu þau hvort sína skoðunina á umræddu fatafellumáli þegar þau voru innt eftir svörum á því.
„Ég ætla að leyfa þetta,“ segir Dóri DNA um leið. „Ég held að við séum bara að fara eyðileggja jólin fyrir fólki bara svo að við getum hlegið í tvær mínútur.“
Dóri segist standa í þeirri trú um að kynlífsbyltingin þar ytra, nánar tiltekið í Auschwitz, sé með léttara móti en þekkist hér á landi. Þykir honum umrætt mál því líkjast stormi í vatnsglasi.
„Hefurðu séð konur sjá stripp? Það er miklu skemmtilegra hjá þeim heldur en körlum. Þetta er ekki jafn alvarlegt,“ segir Dóri. Telur hann ólíklegt að umrædd karlkyns fatafella sé fórnarlamb mansals líkt og frekar tíðkast hjá konum í kynlífsverkaiðnaðinum.
„Er þetta ekki bara einhver massaður Hans sem elskar að hrista á sér tillann framan í konur sem borga honum fyrir það?“
Ásthildur tekur í allt annan streng og segist ekki vilja vera í sporum lögreglustjóra eða starfsmannanna sem gerðust sekir um fatafellukaupin.
„Ég ætla að vera á öndverðum meiði. Við hefðum fordæmt þetta rækilega hefðu þetta verið karlmenn. Mér finnst þetta bera vott um mikinn dómgreindarskort.“