Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, segir nýjan fund ekki enn hafa verið boðaðan í kjaraviðræðum flugumferðarstjóra og Isavia sem nú eru í fullum gangi.
„Það eina sem ég segi er að fundinum var frestað í dag og viðræðunum frestað. Nýr fundur hefur ekki verið boðaður,“ segir Arnar.
Hann kveðst ekki geta gefið upplýsingar um hvernig gekk að funda í dag. Þá komi frekari upplýsingar í ljós á næstu dögum.
Í vikunni fóru fram fyrstu tvær vinnustöðvanir flugumferðarstjóra, en takist ekki að ná samningum á næstu dögum hyggjast flugumferðarstjórar einnig leggja niður störf tvívegis í næstu viku, 18. og 20. desember.