Fækkun er áhyggjuefni

Pétur Georg Markan, biskupsritari, segir færri skráningar í þjóðkirkjuna áhyggjuefni.
Pétur Georg Markan, biskupsritari, segir færri skráningar í þjóðkirkjuna áhyggjuefni. Samsett mynd

Pétur Georg Markan, biskupsritari, segir þjóðkirkjuna sannarlega hafa áhyggjur af þeirri fækkun sem greinist í skráningum á milli ára. Árið 2019 voru 65,2% lands­manna skráðir í þjóðkirkj­una en í des­em­ber á þessu ári teljast skráðir 56,7%

„Ég held að það sé varasamt að tengja þessa þróun við einhverja einstaka atburði eða umræðu. Það má algerlega rekja félagslega hreyfingu og breytingar í þessa átt einhverja áratugi aftur í tímann. Engu að síður er þetta þróun sem kallar á stöðuga naflaskoðun og það erum við að gera. “ Pétur segir að nokkuð langt sé síðan að fólk kveikti á perunni með það að hægt væri að skrá sig úr þjóðkirkjunni sem leið til að tjá óánægju sína.

Bitnar helst á nærþjónustunni

Pétur telur að ekki allir átti sig á því að með því að skrá sig úr þjóðkirkjunni þá rýri það sóknargjöld í viðkomandi sókn. Kirkjan greini ekki að þörfin fyrir þjónustu sé neitt minni og greinir meiri þörf á sumum stöðum, en kirkjan þjóni öllum óháð skráningu.

„Mig grunar stundum að fólk líti á þjóðkirkjuna sem eitthvað bákn sem það vill mótmæla, en það er nærþjónustan sem verður fyrir barðinu á því þegar fólk skráir sig úr kirkjunni.“

Kirkjan veitir einstaka þjónustu

Pétur telur þjóðkirkjuna veita einstaka þjónustu, sem nær um land allt. „Sérstaða þjóðkirkjunnar er mannauðurinn, við erum með háskólamenntað fólk sem við dreifum um allt land til að sinna mikilvægum störfum. Við þjónum öllu landinu af krafti. Þar held ég að styrkur okkar sé líka til framtíðar.“

Varðandi þróun til framtíðar þá horfi þjóðkirkjan oft til Svíþjóðar og þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað þar undanfarna áratugi. „Þjóðkirkjan þar varð töluvert sjálfstæðari eftir aðskilnað frá ríkinu. Sænska kirkjan var lengi í lægð en nú má merkja ákveðinn jákvæðan viðsnúning. Ég held að það mætti líta þangað til þess að glöggva sig á því hvernig mál gætu þróast hér.“

Þjóðkirkjan er móðurskipið

Pétur telur þó ekki fækkun skráðra í þjóðkirkjuna endilega kalla á breytingar á stjórnskipulegri stöðu kirkjunnar. „Það var áhugavert að ein af niðurstöðum stjórnlagaþings sem kom saman árið 2011 að ákvæði um þjóðkirkju ætti að vera inni í nýrri stjórnarskrá. Það var einfaldlega val fólksins að ákvæði um þjóðkirkjuna ætti að vera inni í stjórnarskránni. Það ber að taka alvarlega.“

Samkvæmt Pétri hefur þjóðkirkjan ákveðnu hlutverki að gegna sem nokkurs konar móðurskip í fjölbreyttri flóru trúfélaga. "Það er hlutverk sem mætti efla og styrkja. Það væri ábyrgt af stjórnvöldum." Hann bendir til dæmis á þá fjölgun sem orðið hefur í skráningu í kaþólsku kirkjuna til merkis um að kirkjan í stærri skilningi sé í sókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka