Fær ekki endurupptöku í 64 ára gömlu faðernismáli

Endurupptökudómur hafnaði í síðustu viku kröfu manns um að taka upp barnfaðernismál sem móðir hans höfðaði árið 1959 gegn tveimur karlmönnum.

Móðirin og báðir karlmennirnir eru látnir. Beiðni sonarins var hafnað á þeim grundvelli að ekki sé að finna sjálfstæða heimild fyrir börn látinnar manneskju til þess að krefjast endurupptöku á dómi í einkamáli sem hinn látni hefur átt aðild að. Þá sé ekki að finna heimild af þeim toga í II. kafla barnalaga.

„Þegar af þeirri ástæðu er ekki unnt að verða við kröfu endurupptökubeiðanda þar sem hann getur ekki að lögum átt aðild að slíkri beiðni,“ eins og segir í úrskurði Endurupptökudóms.

Endurupptökudómur bendir í úrskurði sínum á að mælt sé fyrir um í barnalögum að barn geti sjálft höfðað faðernismál og að ef maður er látinn áður en mál er höfðað megi höfða það á hendur þeim lögerfingja hans sem gangi barninu jafnhliða eða næst að erfðum.

Sýknaður vegna eiðfalls

Mál móðurinnar var tekið fyrir á bæjarþingi Hafnarfjarðar í september árið 1965 en dómur féll í málinu í ágúst 1967.

Endurtekin blóðflokkarannsókn á öðrum manninum útilokaði hann sem hugsanlegan föður sonar konunnar en blóðflokkarannsókn á hinum manninum leiddi í ljós að hann gæti verið faðirinn.

Í dóminum var móðirin dæmd til þess að vinna fyllingareið. Frestur til eiðvinningar var í dóminum ákveðinn fjórar vikur frá uppkvaðningu dóms. Í dómsorðinu kom fram að ef móðirin ynni eiðinn innan tímafrests þá skyldi sá maður teljast faðirinn sem blóðflokkarannsókn leiddi í ljós að gæti verið það. Yrði eiðfall þá skyldi hugsanlegur faðir sýknaður af öllum kröfum í málinu.

Móðirin lést 30. janúar 1975 og hafa engin gögn fundist um eiðstaf hennar og var maðurinn af þeim sökum sýknaður í málinu.

Sonurinn sagði í endurupptökubeiðni sinni mikilvæga hagsmuni í að faðerni hans yrði leitt í ljós. Hann lagði til að gerð verði erfðafræðileg rannsókn til að skera úr um hversu mikill skyldleiki sé á milli sín og eins afkomanda hugsanlegs föður síns en hann hafi farið í erfðapróf með afkomandanum sem staðfesti skyldleika þeirra á milli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka