Félagsdómur hefur úrskurðað boðun flugumferðarstjóra um tímabundna vinnustöðvun á komandi mánudag löglega.
Samtök atvinnulífsins (SA) stefndu málinu fyrir Félagsdóm þar sem þau töldu að boðunin hefði ekki borist með lögmætum fyrirvara.
Ragnar Árnason, lögmaður og forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA, segir það vonbrigði að Félagsdómurinn túlki lögin með þessum hætti. Segir hann að dómurinn virðist gera þá kröfu að starfsfólk SA sé við vinnu og fylgist með sínum tölvupósti sjö daga vikunnar.
„Þetta er sent okkur síðdegis á sunnudegi og það er talið nægilega snemma fram komið,“ segir Ragnar en samkvæmt ákvæðum vinnulöggjafarinnar ber að tilkynna sáttasemjara og þeim sem vinnustöðvun beinist aðallega gegn um hana 7 sólarhringum áður en ætlað er að hún hefjist.
Segir Ragnar að SA hefði þótt eðlilegt að miða við þann tíma þegar áætluð vinnustöðvun var komin til þeirra vitundar, hvenær við fáum raunverulega vitneskju um innihald svona boðunar.
„Félagsdómur var á öðru máli. Þetta lagaákvæði er frá 1938 þar sem svona fyrirkomulag boðunar var í raun óþekkt. Menn yfirfæra breytingar á tækni og gera ráð fyrir að það sé heimilt að nota tölvupóst og senda hann um helgi og við hefðum mátt vita það að þessi boðun væri á leiðinni.“
Segir Ragnar að SA séu eðlilega ekki sátt við þá túlkun lagaávæðisins. Hann segir ekkert að frétta af samningamálum og segir afstöðu SA skýra um að ekki sé hægt að semja við flugumferðarstjóra umfram það sem hefur verið samið við aðra hópa.
Ertu bjartsýnn á að málin geti þokast eitthvað?
„Ekki á þessari stundu nei. Ég get ekki sagt það.“