Grétar Sigfinnur dæmdur fyrir umfangsmikil skattsvik

Grétar Sigfinnur Sigurðarson hefur verið sakfelldur fyrir umfangsmikil skattsvik.
Grétar Sigfinnur Sigurðarson hefur verið sakfelldur fyrir umfangsmikil skattsvik. mbl.is/Þór

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn og fyrirliði KR, Grétar Sigfinnur Sigurðarson, hefur verið dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir umfangsmikil skattsvik á árunum 2017-2019.

Þá hefur Grétari verið gert að greiða tæpar 64 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins eða að sæta fangelsi í 360 daga. 

Komst hjá því að greiða 31,8 milljónir

Í september lagði embætti héraðssaksóknara fram ákæru á hendur Grétari Sigfinni fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum. Var Grétari þá gefið að sök að hafa vanframtalið tekjur sínar á árunum 2017-2019 um 76,4 milljónir og með því komist hjá því að greiða 31,8 milljónir í skatta.

Í ákærunni er greint frá því að Grétar hafi vanframtalið tekjur sínar árið 2017 upp á 19,2 millj­ón­ir, árið 2018 upp á 27,7 millj­ón­ir og árið 2019 upp á 29,5 millj­ón­ir. Fór héraðssaksóknari fram á að Grétar yrði dæmdur til refsingar fyrir brot sín.

Grétar Sigfinnur á farsælan knattspyrnuferil að baki, en hann vann …
Grétar Sigfinnur á farsælan knattspyrnuferil að baki, en hann vann bæði Íslands-og Bikarmeistaratitla með úrvalsdeildarliði KR. Ljósmynd/Eva Björk Ægisdóttir

Rannsókn hófst árið 2020

Fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem birtur var 1. desember síðastliðinn, að þann 2. júlí 2020 hafi Skattrannsóknarstjóri ríkisins (SRS) formlega hafist handa við rannsókn sem beindist að Grétari og tveimur tilgreindum einkahlutafélögum sem tengdust honum. 

Rannsóknin, sem lauk í desember 2020, sýndi fram á að á tímabilinu 2017-2019 hefði Grétar staðið skil á efnislega röngum skattframtölum. Nánar tiltekið höfðu greiðslur til hans frá téðum einkahlutafélögum auk greiðslna frá íþróttafélagi sem hann starfaði fyrir verið vanframtaldar. 

Þar að auki leiddi rannsóknin í ljós að tilgreind bifreiðahlunnindi Grétars hefðu verið vanframtalin ásamt tekjum ákærða af spilamennsku, en árið 2017 lék Grétar með liði Þróttar Reykjavíkur í fyrstu-deild karla í knattspyrnu. 

Ásetningur eða stórfellt hirðuleysi?

Í tilkynningu sem SRS sendi frá sér til Grétars í lok árs 2020 var hann upplýstur um niðurstöður rannsóknarinnar. Þar sagði einnig að SRS teldi að meint brot ákærða hefðu verið framin af ásetningi eða stórfelldu hirðuleysi og að þau gætu varðað hann refsiábyrgð. 

Nokkru síðar, í maí 2022, gaf Grétar framburðarskýrslu hjá héraðssaksóknara með réttarstöðu sakbornings, en að auki voru teknar skýrslur af tveimur vitnum. Í dómi héraðsdóms segir að í skýrslu ákærða hafi hann lagt áherslu á að ganga frá vanköntum á bókhaldi fyrirtækja sinna og að greiða niður skuldir þeirra.

Þá kvaðst Grétar ekki hafa verið með ásetning til brotsins, heldur hefðu honum orðið á mistök vegna skorts á nauðsynlegri yfirsýn á fyrirtækjarekstur. Hann sagði jafnframt að eftir að hafa verið ákærður fyrir brotin hefði hann leitast við að efna samkomulag við Skattinn og standa skil á þeim skattgreiðslum sem honum og fyrirtækjum hans bæri að greiða.

Játaði brotin skýlaust

Í niðurstöðukafla dóms héraðsdóms Reykjavíkur segir að játning Grétars ásamt öðrum gögnum málsins sýni fram á að ákærði sé sekur um þá háttsemi sem honum sé gefin að sök. 

„Af málsgögnum og framburði ákærða fyrir dómi er ljóst að hann sýndi að minnsta kosti af sér stórfellt gáleysi við framningu brotanna þar sem þess var ekki gætt að haga umræddum skattskilum með lögmætum og réttum hætti þar sem ákærði stóð skil á efnislega röngum skattframtölum,“ segir í dómnum. 

Þar segir einnig að við ákvörðun refsingarinnar á hendur Grétars hafi verið tekið tillit til þess að hann hafi játað sök skýlaust og að hann hafi ekki áður gerst brotlegur við refsilög. Samt sem áður beri honum að gera upp skuldir sínar og hefur honum því verið gert að greiða tvöfalda fésekt til ríkissjóðs sem nemur 63.700.000 krónum, en sæta ella fangelsi í 360 daga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka