Haraldur segir lokunina ekki réttlætanlega

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur segir að það sé sér óskiljanlegt hvers …
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur segir að það sé sér óskiljanlegt hvers vegna Almannavarnir og Veðurstofan hafi haldið áfram lokun í Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur segir lokun og framlengingu lokunar í Grindavík ekki réttlætanlega frá sjónarhóli jarðfræðings „sem hefur rannsakað eldfjöll í sextíu ár,“ eins og hann orðar það.

Haraldur bloggaði um efnið á bloggsíðu sinni í gær.

Eingöngu tekið mark á skoðunum sem fylgja opinberri línu

Hann segist frá 11. desember hafa birt um 20 þætti um jarðskorpuhreyfingarnar í grennd við Grindavík en skrif sín hafi verið eins og hróp í eyðimörkinni.

„Enginn heyrir, og þeir sem heyra taka ekki mark á skoðunum aðila sem fylgir ekki hinni opinberu línu,“ segir Haraldur.

Þá segir eldfjallafræðingurinn reyndi að skoðanir hans hafi komið fram í viðtölum við ýmsa fjölmiðla, bæði innlenda og erlenda.

Myndin sýnir bóluna (rautt) sem markar landris fyrir norðan Grindavík …
Myndin sýnir bóluna (rautt) sem markar landris fyrir norðan Grindavík frá 19. nóvember 2023. Kvikuþrýstingur eða kvikumagn í bólunni nálægt botni jarðskorpunnar er ekki nægjanlegt til að valda eldgosi að mati Haraldar. Mynd/Veðurstofa Íslands

Kvikumagn ekki nægjanlegt til að valda eldgosi

„Ég setti strax fram þá skoðun mína að þessir atburðir væru fyrst og fremst jarðskorpuhreyfingar, tengdar gliðnun Norður Ameríkuflekans til vesturs, frá Evrasíuflekanum í austri.

Kvika væri vissulega fyrir hendi á svæðinu, eins og kom fram í þremur litlum gosum í grennd við Fagradalsfjall árin 2021, 2022 og 2023, en það væri ekki kvika sem ráði ferðinni hér, heldur flekahreyfingar.

Myndun á bólu eða risi lands um 50 til 100 ferkílómetrar að flatarmáli, fyrst í Fagradalsfjallseldstöðinni og síðar í kringum Þorbjörn og Bláa lónið eru sennilega ótvíræð merki um að hraunkvika er fyrir hendi neðst í eða undir jarðskorpunni.

Þrátt fyrir mikla gliðnun og hugsanlega myndun kvikugangs norðan Grindavíkur, þá hefur kvikan ekki náð enn upp á yfirborð. Kvikuþrýstingur eða kvikumagn í bólunni nálægt botni jarðskorpunnar er ekki nægjanlegt til að valda eldgosi,“ segir Haraldur í bloggfærslu sinni.

Náttúruhamfarir óhjákvæmilegar á Íslandi

Hann segir að það sé sér óskiljanlegt hvers vegna almannavarnir og Veðurstofan hafi haldið áfram lokun í Grindavík.

„Íslendingar hafa alltaf vitað að þeir búa á landi þar sem náttúrhamfarir eru óhjákvæmilegur þáttur lífsins.  Það þarf seiglu til að búa á slíku landi og það er viss áhætta, en það er einmitt eitt af aðalsmerkjum Íslendinga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert