Kára kom á óvart að þetta væri Dani

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði að það hefði komið …
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði að það hefði komið á óvart að höfuðkúpan tilheyrði Dana. mbl.is/Árni Sæberg

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir það hafa komið sér á óvart að höfuðkúpan sem fannst í Ráðherrabústaðnum í haust, hafi verið af herðum Dana. Hann segist þó ekki hafa orðið fyrir vonbrigðum, enda löngu hættur að gera sér vonir um niðurstöður vísindarannsókna.

„Ég var alveg handviss um að við gætum leyst þetta. Ég hélt auðvitað að þetta væri að öllum líkindum Íslendingur. Þá hefðum við getað fundið afkomendur eða skyldmenni þessa Íslendings. Það kom á óvart að þetta væri Dani. Þetta var ekki Íslendingur heldur meðlimur af nýlenduþjóðinni sem við tilheyrðum,“ segir Kári í samtali við mbl.is í Ráðherrabústaðnum eftir að greint var frá uppruna höfuðkúpunnar.

Agnar Helgason og Sunna Ebenesersdóttir mannerfðafræðingar kynntu niðurstöður rannsókna sinna í Ráðherrabústaðnum í dag. Höfuðkúpan tilheyrði danskri konu sem var á lífi á 18. öld. Hún var að öllum líkindum dökkhærð og með brún augu.

„Mér finnst þetta sniðugt“

Spurður hvort það hefði valdið honum vonbrigðum, að geta ekki rakið ættir eiganda höfuðkúpunnar, segir Kári nei. 

„Maður verður ekki fyrir vonbrigðum. Þetta kom mér á óvart. Þetta er bara það sem þetta er. Þegar maður vinnur í vísindarannsóknum eins og við gerum þá er maður löngu, löngu hættur að verða fyrir vonbrigðum þegar hlutir reynast öðruvísi en maður reiknaði með. Því langoftast þegar maður setur fram kenningu reynist hún vera röng. Það er bara fínt. Mér finnst þetta sniðugt,“ segir Kári.

Höfuðkúpan tilheyrði danskri konu sem að öllum líkindum var uppi …
Höfuðkúpan tilheyrði danskri konu sem að öllum líkindum var uppi á 18. öld. Ljósmynd/Þjóðminjasafnið

Umræða sem á eftir að taka

Hægt var að rekja erfðaefni dönsku konunnar til núlifandi Dana. Íslensk erfðagreining hafði samband við samstarfsstofnun sína í Danmörku og segir Kári þau hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu um að ekki væri rétt skref að hafa samband við það fólk eða nafngreina það.

„Þar sem ekki var búið að kanna þennan möguleika. Við höfum aldrei velt fyrir okkur hvað gerist ef við finnum gömul bein og getur rakið þau til núlifandi einstaklinga. Er það rangt að einhverju leyti? Er að einhverju leyti verið að vega að þeim sem eru lifandi? Við eigum eftir að ræða það og komast að niðurstöðu,“ segir Kári. 

Skemmtilegt að hoppa ofan í þetta

Hann segir þetta verkefni vera eitt af þeim samfélagsþjónustuverkefnum sem Íslensk erfðagreining vinnur fyrir íslenskt samfélag, en Kári bauð fram aðstoð Íslenskrar erfðagreiningar þegar hann frétti af því að höfuðkúpan hefði fundist. 

„Við gerðum það í faraldrinum, við erum að gera það með riðuna, svo þegar svona hlutir gerast þá finnst mér alveg sjálfsagt, og skemmtilegt, að hoppa ofan í þetta,“ segir Kári. 

Agnar Helgason mannerfðafræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Agnar Helgason mannerfðafræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu. mbl.is/Árni Sæberg

Kári komst ekki á flug

Spurður hvort hugur hans hafi ekki farið á flug, að búa til sögur um hvaðan höfuðkúpan gæti kunnað að hafa komið segir hann nei. 

„Ekki í þessu tilfelli. Þegar finnast bein á þessu svæði eru svo yfirgnæfandi líkur að þetta séu bara leifar úr kirkjugarði. Það er lítið pláss fyrir morðsögur í því samhengi,“ segir Kári að lokum. 

Í hugleiðingum Agnars Helgasonar mannerfðafræðings í dag kom fram að líklega hafi konan látist hér á Íslandi. Hugsanlega hafi hún verið grafin í Víkurkirkjugarði, þar sem nú er Fógetagarðurinn að hluta. Hætt var að jarðsetja þar 1838 og tók þá Hólavallakirkjugarður við. 

Oft hafi bein komið upp úr jörðinni á byggingareitum í kringum Víkurkirkjugarð og hugsanlega eru höfuðskeljarnar dæmi um það. 

Erfitt er að leysa ráðgátuna um það hvernig höfuðkúpubrotin enduðu …
Erfitt er að leysa ráðgátuna um það hvernig höfuðkúpubrotin enduðu undir gólffjölum í Ráðherrabústaðnum. Ljósmynd/Þjóðminjasafnið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka