Katrín mátar uppruna höfuðkúpunnar inn í glæpasögu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Ráðherrabústaðnum í dag. Í forgrunni er …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Ráðherrabústaðnum í dag. Í forgrunni er Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir eitthvað fallegt við það hvernig örlög danskrar konu frá 18. öld hefðu ratað beint inn í hjörtu fólks. Segist hún hafa farið á flug í að búa til sögu um hvernig það kom til að brot úr höfuðkúpu hafi endað undir gólffjöl í Ráðherrabústaðnum. 

„Það er bendir ekkert annað til þess en að hún hafi dáið af náttúrulegum orsökum. Og það eru tilgátur um að hún hafi verið grafin í Víkurkirkjugarðinum, en eins og kom fram á fundinum. Það eru ekki vísindi heldur tilgáta,“ segir Katrín í samtali við mbl.is og vísar þar til fundar þar sem uppruni beinanna var kunngjörður. 

Ekki lengi að taka boði Kára

Höfuðkúpan, eða brot úr henni, fundust í Ráðherrabústaðnum í haust og bauð Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, fram hjálp. Fram kom á fundinum að höfuðkúpan hefði hvílt á herðum danskrar konu sem dáið hefði hér á landi. 

„Mér finnst rosalega merkilegt að það sé hægt að taka þessi höfuðbein, sem eru pínulítil brot úr höfuðkúpu, og fá þá niðurstöðu fram að þetta hafi verið dönsk kona frá þessum tíma. Maður fyllist aðdáunar á vísindunum og hvers þau eru megnug. Mér fannst þetta áhugavert, að fá þessar niðurstöður,“ segir Katrín.

„Mér fannst skemmtilegt þegar Kári hafði samband með þetta tilboð og var ekki lengi að taka því,“ segir hún.

Bjó strax til glæpasögu í höfðinu

Ekkert bendir til annars en að konan hafi dáið af náttúrulegum orsökum en forsætisráðherra, sem einnig er höfundur glæpasögunnar Reykjavík, fór strax að búa til glæpasögu úr fundinum. 

„Ég bý til sögur úr öllu sem gerist í kringum mig og á eftir að skrifa einhverjar fleiri seinna. Ég fór náttúrulega strax að búa mér til einhverja morðsögu í Ráðherrabústaðnum og fundur dagsins hefur auðvitað áhrif á þá atburðarás. Þannig þarf aðeins að velta fyrir sér hvernig maður myndi máta þetta sem innblástur í mögulega glæpasögu. Þó það séu engar vísbendingar um glæp þá fer ímyndunaraflið af stað,“ segir Katrín.

Saklaus af ráðherramorði

Spurð hvort hún hefði talað við Ragnar Jónasson, rithöfund og meðhöfund hennar að Reykjavík, hlær Katrín og segir að Ragnar hafi verið einn af þeim sem heyrðu manna fyrstur í henni eftir að höfuðkúpan dannst. 

„Hann var auðvitað mjög spenntur og var einn af þeim sem hafði fyrstur samband þegar beinin fundust. En síðan voru auðvitað vangaveltur frá alls konar fólki um af hverju beinin enduðu þarna í Ráðherrabústaðnum. Hvort að beinin hafi mögulega verið nýtt sem öskubakki, sem til eru heimildir um að hafi verið gert, þannig fólk hefur komið fram með alls konar kenningar,“ segir Katrín.

„Fyrir utan auðvitað horfna ráðherrann. Ég er alveg saklaus af því að hafa látið nokkurn ráðherra hverfa,“ segir Katrín.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka