Landsréttur sneri í dag við dómi héraðsdóms og sýknaði Margréti Friðriksdóttur, sem heldur úti Fréttin.is, af ákæru um að hafa hótað Semu Erlu Serdaroglu lífláti. Sema Erla er stofnandi Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi. Dómur Landsréttar var kveðinn upp núna klukkan tvö í dag.
Í ákæru málsins var Margrét sökuð um að hafa hótað Semu Erlu lífláti fyrir utan Cafe Benzin við Grensásveg. Var hún sökuð um að hafa sagt við Semu Erlu á ensku: „I'm gonna kill you, you fucking bitch.“ Gæti það útlagst lauslega á íslensku sem: „Ég ætla að drepa þig fokking tíkin þín.“
Ákæruvaldið taldi orð Margrétar varða við 233. grein almennra hegningarlaga, en þar segir: „Hver, sem hefur í frammi hótun um að fremja refsiverðan verknað, og hótunin er til þess fallin að vekja hjá öðrum manni ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína eða annarra, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“
Héraðsdómur hafði komist að þeirri niðurstöðu að dæma Margréti í 30 daga fangelsi, en sem fyrr segir sýknaði Landsréttur Margréti í dag.
Í kjölfar dóms héraðsdóms í febrúar setti Margrét inn færslu á frettin.is þar sem hún gagnrýndi dóm héraðsdóms og fór ófögrum orðum um Barböru Björnsdóttur, dómara málsins við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Kallaði Margrét dómarann meðal annars siðblindan og að verið væri að kalla eftir stríði. Þá lét hún einnig orð falla um dómara við Landsrétt. Margrét eyddi færslunni fljótlega eftir birtingu, en Arnar Þór Jónsson, sem hafði verið verjandi Margrétar, sagði sig eftir þetta frá máli hennar. Lögmaðurinn Skúli Sveinsson tók þá við málinu en hann er jafnframt lögmaður Margrétar í nýju meiðyrðamáli gegn henni.
Í byrjun apríl greindi mbl.is frá því að Barbara hefði stefnt Margréti fyrir meiðyrði. Sagði Margrét við mbl.is þá að hún hafi verið miður sín þegar hún skrifaði færsluna því það hafi verið framið réttarmorð á sér. Spurð út í færsluna sem hafði verið tekin út sagði Margrét þá: „Ég hef vitneskju um hennar óheiðarlega líferni innan dómstólanna. Ég kallaði hana lausláta mellu og ég stend við það, það er mín skoðun og það er tjáningarfrelsi.“