Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að kynferðislegt ofbeldi, áreiti eða einelti eigi hvergi að líðast og að vinnustaðir eigi að vera öryggir.
Nokkur háttsemisbrot innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa komið til kasta yfirstjórnar lögreglunnar á árinu, en þar er um að ræða mál við einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi.
Greint var frá einu slíku í Kastljósi í vikunni, en þar kom fram að yfirmaður hjá embættinu væri kominn til starfa eftir að hafa verið í leyfi. Hafði lögreglukona þurft að þola áreitni og ofbeldisfulla hegðun af hendi mannsins og var hann sagður beita ógnarstjórn og misbeita valdi sínu innan vinnustaðarins.
„Ég get ekki tjáð mig um þessi mál. Ég þekki þau ekki og hef ekki spurst fyrir um þau. Vitaskuld verður að taka fast á svona málum. Kynferðislegt ofbeldi, áreiti eða einelti á hvergi að líðast. Vinnustaðir eiga að vera öryggir staðir fyrir starfsfólk og ég legg mikla áherslu á það að í mínum störfum sem æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu að við séum traustsins verð,“ segir Guðrún.
Hún segir að lögreglan hafi notið trausts borgara landsins og það sé mjög mikilvægt að svo verði áfram. Þess vegna finnist henni hryggilegt að staðan sé með þessum hætti.
„Ég vænti þess að það verði tekið þétt á þessum málum og sömuleiðis að það verði tekið utan um þolendur.“
Fram kom í Morgunblaðinu í dag að tveir dómar í héraði hafi sýknað fullorðna karlmenn af ákæru um nauðgun en þeir hafi verið sakfelldir fyrir að haft samræði við barn yngra en 15 ára. Spurð út í viðbrögð hennar við þessum dómum segir Guðrún:
„Þarna er um að ræða tvo dóma héraðsdóms og niðurstöður þeirra komu mér á óvart. Ég held að ég fari rétt með að það sé búið að áfrýja öðrum þeirra og ég vænti þess að hinum verði líka áfrýjað. Ef niðurstöður Landsréttar verða með sambærilegum hætti er mögulegt að skoða þurfi breytingar á löggjöfinni,“ segir Guðrún.